8. mar 2013

Íbúar í Svalbarðsstrandarhreppi beðnir að sjóða neysluvatn

Vegna mengunar í einu af vatnsbóli Svalbarðsstrandarhrepps er nauðsynlegt að íbúar sjóði neysluvatn.

Á Akureyri var meðalhitinn 2,3 stig í febrúar sem er 3,8 stigum ofan við meðallag og er mánuðurinn sá fimmti hlýjasti frá upphafi samfelldra mælinga.  Miklar hlákur voru þessu samfara og líkur á að yfirborðsvatn hafi komist hratt niður í grunnvatn og síðan valdið mengun á einu af vatnsbólum veitunnar við Garðsvík á Svalbarðsströnd.

Reglulega eru gerðar mælingar á öllum vatnsbólum Norðurorku en þar sem fram kom set í vatninu (grugg) var farið í frekari gæðamælingar á vatninu frá Garðsvíkurbólum.

Vegna mengunarinnar er íbúum í Svalbarðsstrandarhreppi ráðlagt að sjóða allt neysluvatn (vatn til beinnar neyslu) næstu daga. Norðurorka hefur þegar lokað fyrir umrætt vatnsból og vinnur að frekari yfirferð á veitunni.  Vonast er til að ástandið lagist innan fárra daga. Fylgst verður með vatnsgæðum með áframhaldandi sýnatökum og gefin verður út ný tilkynning til íbúa þegar vatnið hefur náð áskildum gæðum.

Verið er að bera út tilkynningar um framangreint til íbúa á svæðinu nú síðdegis föstudaginn 8. mars.

Svalbarðseyri