15. sep 2015

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra í heimsókn hjá Norðurorku

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir kom til Akureyrar s.l. mánudag og heimsótti ýmis fyrirtæki á svæðinu og þar með talið Norðurorku og dótturfélag þess Vistorku.

Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku kynnti starfsemi félagsins auk þess að leggja áherslu á ýmiss hagsmunamál félagsins og atvinnulífs á svæðinu en þar ber hæst styrkingu á flutningskerfi rafmagns til Eyjafjarðarsvæðisins.

Guðmundur Haukur Sigurðarson framkvæmdastjóri Vistorku kynnti starfsemina og þau markmið félagsins að stuðla að framleiðslu á umhverfisvænu eldsneyti með sjálfbærri nýtingu hráefni sem fellur til á Eyjafjarðarsvæðinu auk þess að nýta betur aðra vistvæna orkugjafa eins og rafmagn.  Lagði Guðmundur áherslu á að fjölmörg tækifæri eru fyrir almenning, fyrirtæki og sveitarfélög á svæðinu til þess að vinna að þessum markmiðum og þar með vistvænna samfélagi.

Á fundinum voru einnig bæjarstjórinn á Akureyri Eiríkur Björn Björgvinsson, stjórnaformaður Norðurorku Geir Kristinn Aðalsteinsson, aðstoðarmaður ráðherra ásamt nokkrum starfsmönnum Akureyrarbæjar og Norðurorku sem tóku virkan þátt í umræðum um þau verkefni sem unnið er að og með hvaða hætti löggjafinn og ráðuneytið geta stutt við þau.

Meðal annarra fyrirtækja sem ráðherra heimsótti og tengjast markmiðunum um vistvænna samfélag eru sprotafyrirtækin Orkey sem framleiðir lífdísel og GPO sem framleiðir olíu úr plasti. Þar kynnti ráðherra sér að eigin raun starfsemi fyrirtækjanna og þá hagsmuni sem undir eru til að draga úr kolefnisspori Íslands.

Heimsókn iðnaðar- og viðskiptaráðherra til Norðurorku 14. september 2015