23. apr 2012

Jarðhitaleit í Hörgársveit

Jarðhitaleit í Hörgárdal og Öxnadal gefa ekki vísbendingar um nýtanleg jarðhitasvæði innan við Laugaland á Þelamörk samkvæmt niðurstöðum Íslenskar orkurannsókna.

Íslenskar Orkurannsóknir hafa skilað skýrslu um jarðhitaleit í Hörgársveit.  Í skýrslunni er fjallað um jarðhitaleit  sem fór fram síðastliðið haust og í byrjun árs 2012.  Norðurorka og Hörgársveit stóðu sameiginlega að rannsókninni með stuðningi  frá Orkusjóði. Eftir útboð var samið við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða um borun hitastigulsholna. Gert var ráð fyrir borun allt að 18 holna en þó aldrei færri en 10 og varð raunin sú að boraðar voru sextán holur.  Íslenskar Orkurannsóknir sáu um undirbúning rannsóknarverkefnisins, ákvörðun borstaða og hitastigulsmælingar en allar holurnar  voru mældar tvisvar og út frá þeim mælingum var metinn hitastigull þeirra en einnig var stuðst við gögn úr eldri borholum á svæðinu.
Hitastigull í holunum mælist á bilinu 47–105°C/km. Flestar holurnar sýna dæmigerðan, ótruflaðan bakgrunnsstigul og gefa því engar vísbendingar um jarðhitasvæði í nágrenninu.   Svæðið sem rannsakað var má sjá á meðfylgjandi kortum I og II.  Á svæði sem afmarkast af Steðja, Skriðu og Skógum, fer hitastigull upp í 70–80°C/km en er 50°C/km umhverfis.  Í skýrslu ÍSOR segir að þarna séu vísbendingar um jarðhitasvæði en þó mjög veikar og vafasamt að fjárhagslega sé réttlætanlegt að fylgja þeim frekar eftir. Þá koma einnig fram vísbendingar um hækkandi hitastigul fremst í Öxnadal en þær mælingar  voru hins vegar truflaðar af vatnsrennsli í borholunum við Varmavatnshóla og Bakkasel sem truflar ákvörðun hitastiguls.

Niðurstaða rannsóknanna er að nýtanlegt jarðhitakerfi sé ekki að finna í byggð í Hörgár- eða Öxnadal innan við Laugaland á Þelamörk.

Hörgársveit Hörgárdalur Öxnadalur