Fyrir áramót hófust jarðhitarannsóknir í Hörgárdal og Öxnadal á vegum Hörgársveitar og Norðurorku hf. með stuðningi Orkusjóðs. Áætlað var að bora allt að 20 svonefndar hitastigulsholur víðs vegar um svæðið og er þeirri vinnu nú lokið. Boraðar voru 16 holur, 60-100m djúpar.
Lokaskýrsla um rannsóknina liggur ekki fyrir. En miðað við fyrstu skoðun á fyrirliggjandi gögnum er fátt sem bendir til þess að frekari jarðhita sé að finna í Hörgárdal og Öxnadal. Óljósar vísbendingar eru þó um hækkað hitastig við Bakkasel og vitað er um volgrur framarlega í Hörgárdal. Í báðum tilfellum þarf frekari rannsókna við og ljóst að þó svo að heitt vatn finnist á þessum stöðum þá er það svo langt frá byggð, svo ekki sé talað um byggðakjarna, að nánast er útilokað að nýta það.
Fræðileg umsjón með verkefninu var í höndum Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR) en um borun sá Ræktunarsamband Flóa og Skeiða. Verkefnisstjóri Norðurorku í verkinu er Franz Árnason.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15