Þann 25. júlí komu nemendur í Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna í árlega heimsókn. Starfsmenn Norðurorku, Hrönn Brynjarsdóttir gæða- og öryggisstjóri og Pétur Freyr Jónsson yfirvélafræðingur, fóru með hópinn í leiðsögn um helstu vinnslusvæði hitaveitu á svæðinu, Laugaland og Hjalteyri. Í framhaldinu var ekið í höfuðstöðvar NO þar sem frekari fræðsla tók við.
Pétur Freyr Jónsson yfirvélfræðingur fræðir hópinn um borholurnar og hitaveituna á Laugandi.
Rölt frá rútunni neðar við veginn, að dælustöðinni á Laugalandi í góða veðrinu sem var þann daginn.
Komin til Hjalteyrar, þaðan sem þrjár borholur sjá Akureyringum fyrir 75% af heitu vatni. Hrönn Brynjarsdóttir, gæða- og öryggisstjóri fræðir hópinn um þær áskoranir sem blasa við í hitaveitumálum á starfssvæði Norðurorku.
Jarðhitaskóli sameinuðu þjóðanna er einn fjögurra skóla GRÓ, þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu. Nemendur skólans í ár eru frá samtals tólf löndum: Bólivíu, Kína, Dóminíska lýðveldinu, El Salvador, Indlandi, Indónesíu, Kasakstan, Kenía, Mongólíu, Salómonseyjum, Tansaníu og Úganda. Hlutverk skólans er að veita ungum sérfræðingum frá þróunarlöndunum þjálfun í rannsóknum og nýtingu jarðhita. Skólinn er mikilvægur þáttur í þróunaraðstoð Íslendinga og á 44 árum hefur skólinn útskrifað hátt í 800 nemendur.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15