24. nóv 2011

Jólin koma

Á laugardaginn kemur kl. 14.50 verða ljósin á jólatrénu á Ráðhústorgi tendruð samkvæmt áratugalangri hefð.

Á laugardaginn kemur verða ljósin á jólatrénu á Ráðhústorgi tendruð samkvæmt áratuga langri hefð, en sem fyrr er það vinabær Akureyrar í Danmörku, Randers, sem gefur bæjarbúum tréð.

Dagskráin hefst kl. 14.50 en boðið verður upp á ýmis konar tónlistaratriði, flutt stutt ávörp, jólakötturinn læðist inn á torgið og jólasveinarnir í humátt á eftir honum.  Dagskrárlok eru áætluð um kl. 16.00.

Starfsmenn framkvæmdadeildar Akureyrarbæjar voru í morgun í óðaönn að koma jólaseríunni fyrir í trénu þannig að allt verði nú klárt á laugardaginn.

Jólaljósin eru kærkomin í skammdeginu, en þýða um leið að notkun á dreifikerfi Norðurorku eykst töluvert í desember sem er einn notkunarhæsti mánuður ársins.

Jólaseríurnar gerðar klárar á Ráðhústorgi