Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku hf. hefur ritað eftirfarandi grein í kjölfar þess að Akureyringar voru í síðustu viku beðnir að spara kalda vatnið. Sögulega hefur á ýmsu gengið í vatnsöflun fyrir Akureyri frá því fyrstu vatnsveiturnar voru stofnaðar á fyrsta áratug síðustu aldar en auðvitað bregður okkur þegar ekki hefur þurft að biðja bæjarbúa að spara vatn sl. áratugi.
Helgi leggur áherslu á að þegar vatnsstaða í miðlunargeymum fer niðurfyrir öryggismörk þá kalli það á aðgerðir en það var einmitt það sem gerðist sl. fimmtudag.
Grein Helga fer hér á eftir:
Norðurorka hf. rekur vatnsveitur á Akureyri, þ.m.t. Hrísey, í Svalbarðsstrandarhreppi, í Eyjafjarðarsveit og Hörgárbyggð. Á Akureyri þjónar vatnsveita Norðurorku öllum íbúunum, en í hinum sveitarfélögunum afmörkuðum byggðakjörnum en dreifbýlinu í takmörkuðum mæli.
Almennt hefur vatnsbúskapur vatnsveitna Norðurorku hf. verið mjög góður og markvisst verið unnið að styrkja hann á undanförnum árum með endurbótum á vatnsbólum auk undirbúnings að frekari miðlunarmögleikum.
Saga vatnsveitu Akureyrar spannar brátt 100 ár en hún var formlega stofnuð árið 1914. Á ýmsu hefur gegnið í vatnsöflun veitunnar í gegnum tíðina og í Akureyrarblöðunum á fjórða, fimmta og sjötta áratugnum mátti oftar en ekki sjá auglýsingar frá vatnsveitunni þar sem bæjarbúar voru beðnir að spara vatnið. Síðast liðna áratugi hefur veitan á hinn bóginn búið að nægu hreinu vatni og tekist mjög vel að mæta aukinni þörf bæjarbúa og atvinnurekstrar fyrir neysluvatn.
Fimmtudaginn 9. ágúst gaf sjálfvirkur viðvörunarbúnaður til kynna að vatnsstaða í miðlunargeymum vatnsveitunar væri kominn niðurfyrir svonefnd öryggisviðmið. Við þær aðstæður fer ákveðið vinnuferli í gang sem meðal annars gerir ráð fyrir að viðskiptavinir séu beðnir að spara vatnið. Óvenju mikil þurrkatíð leiðir eðlilega til þess að bæjarbúar vökva gróður meira en venjulega og fyrir liggur að það er fyrst og fremst stóraukin notkun sem olli því að ekki hafðist undan. En auðvitað bætir ekki úr skák að náttúrulegar vatnslindir okkar hafa einnig gefið eftir frá því sem venjulegt er á þessum árstíma.
Í dag nýtir Norðurorka þrjú vatnstökusvæði til þess að þjóna Akureyringum. Í Hlíðarfjalli eru Hesjuvallalindir, sem draga nafnd sitt af bænum Hesjuvöllum, en það eru einmitt þær lindir sem nýttar hafa verið frá stofnun veitunar árið 1914. Árið 1958 voru síðan teknar í notkun svonefndar Sellandslindir sem eru norðan til í mynni Glerárdals og loks árið 1973 að virkjaðar voru borholur á Hörgáreyrum í landi Vagla. Vatnið úr Hesjuvallalindum og Sellandslindum er sjálfrennandi í bæinn en aftur á móti þarf að dæla vatninu frá Vöglum.
Liðin sumur hefur lítið þurft að dæla frá Vöglum þar sem lindirnar ofan bæjarins hafa að mestu annað notkuninni. Sumarið 2011 voru miklar framkvæmdir á Hesjuvallasvæðinu, bæði til að gera svæðið öruggara og til að auka vatnsmagn. Sumarið er tími framkvæmda meðan þurrt er og mögulegt að komast um svæðin. Núna í sumar hefur hluti vatnsbóla ofan Grísarár sem annar þéttbýlinu við Hrafnagil í Eyjafjarðarsveit verið endurbætt og er í fullum rekstri. Þá standa yfir framkvæmdir við hluta Sellandslinda sem bæði lúta að því að auka öryggi þeirra auk þess að skila eitthvað meira vatni. Vegna framkvæmdanna eru afköst Sellandslindanna um það bil 1/3 undir því sem vanalegt er, en gert er ráð fyrir að þeim ljúki eftir um það bil ½ mánuð.
Nýlega var hafin vinna við svonefndar Garðsvíkurlindir á Svalbarðströnd sem þjónar þéttbýlinu á Svalbarðsströnd og byggðakjarnanum syðst í hreppnum, auk húsa og sveitabýla á lagnaleiðinni. Undanfarið hefur rétt náðst að anna því svæði en eftir frekari virkjun lindana vonumst við til að þar verði nægt vatn. Garðsvíkurlindirnar voru á síðastliðnu hausti samtengdar Halllandsveitunni en hún hafði fram til þess tíma þjónað Kotabyggðinni ein og sér, en það verkefni var samstarfsverkefni Norðurorku, Svalbarðsstrandarhrepps og Vegagerðarinnar og tengist gerð Vaðlaheiðarganga með þeim hætti að áhyggjur eru af því að Halllandsvatnsbólin kunni að gefa eftir eða hverfa við gangagerð um Vaðlaheiði. Þá er rétt að taka fram að á Svalbarðströnd fannst fyrir nokkrum dögum bilun sem líklega hefur átt sinn þátt í slakari stöðu veitunnar og eftir viðgerð á henni hefur staðan batnað verulega.
Í þurrkatíð, eins og nú er, gefa náttúrulegar lindir minna af sér og er mat okkar að vatnsmagn úr lindunum ofan Akureyrar hafi minnkað um allt að 35%. Af því leiðir að meira magni er dælt frá Vöglum og liðna daga hafa afköst þar verið aukin og hefur vel náðst að halda í við notkunin nema umræddan fimmtudag. Strax eftir að beiðni kom frá Norðurorku til notenda um að fara sparlega með vatn breyttist staðan. Ástæða er hér til að þakka íbúum fyrir skjót og góð viðbrögð við beiðninni. Við eigum mikið vatn á Vöglum en hafa þarf í huga að stærð lagnarinnar til Akureyrar og tiltækur dælibúnaður takmarkar það magn sem hægt er að dæla þaðan. Lögnin var lögð árið 1973 og var þá stórvirki. Bætt var við hana árið 1988 og með tilkomu hennar varð mikil breyting til batnaðar á vatnsbúskap Akureyringa en hafa ber í huga að stærstur hluti vatnsins yfir vetrarmánuðina kemur frá Vöglum. Í haust er áætlað að endurnýja dælubúnað á Vöglum og skipta út eldri og afkastaminni dælum en samhliða því verður útfærslum dælinga og stýringum kerfa breytt.
Samkvæmt greiningum okkar eru fimmtudagar stærstu notkunardagarnir. Til fróðleiks bárum við saman notkun nokkra fimmtudaga í sumar til að sjá hvernig notkunin hefði þróast, sjá eftirfarandi línurit.
Á línuritinu sést hvernig notkunin hefur vaxið frá sumarbyrjun. Dæmið sýnir að notkun sólahringsins umræddan fimmtudag 9. ágúst er rúmlega 70% meiri en fimmtudaginn 17. maí. Til fróðleiks og samanburðar svarar notkunin þann 9. ágúst til að það þyrfti rúmlega eittþúsund og eitthundrað (1.100) mjólkurbíla eins og MS er með í notkun til að anna vatnsnotkunninni umræddan sólarhring.
Sé horft til talnagagna fer heildarnotkun Akureyringa á köldu vatni hratt vaxandi. Aukning milli áranna 2009 og 2011 er 21%. Á sama tíma hefur íbúum fjölgað um tæp 2% yfir sama tímabil. Að sjálfsögðu koma hér inn aðrar breytur svo sem þróun og samsetning atvinnulífs meðal annars Becromal verksmiðjan.
Af ofangreindu má ráða að áfram er aðgerða þörf til að mæta notkuninni næstu ár. Í sumar hefur verið sérlega óvenjulegt veðurfar sem bæði hefur þýtt aukna notkun og minni gæfi/framleiðslu vatnsbóla, sú saga gæti endurtekið sig. Áfram verður unnið að endurbótum vatnsbóla og búnaðar, auk frekara mats á þörf fyrir stækkun miðlunargeyma sem og virkjun nýrra vatnsbóla. Við starfsfólk Norðurorku drögum lærdóm af ástandinu og greinilegt er að ekkert er gefið með náttúruna. Því verður búnaður og forsjálni að taka mið af þróun og breytingum í umhverfi. Það er vilji og að sjálfsögðu ætlun okkar hjá Norðurorku hf. að hafa ætíð til reiðu nægjanlegt neysluvatn fyrir íbúana og atvinnulífið á hverjum tíma.
Þegar við stjórnendur Norðurorku tókum þá ákvörðun að biðja notendur að fara sparlega með vatn var okkur ljóst að athygli fjölmiðla og notenda myndi beinast að fyrirtækinu. Við teljum að við höfum tekið ábyrga afstöðu miðað við þá stöðu sem upp var komin. Öryggi veitunnar er fyrir öllu, þetta er veitan okkar, veita Akureyringa og nágranna sem veitir okkur dýrmætt ferskt vatn. Alltaf eiga að vera til öryggisbirgðir fyrir notendur sem og slökkvivatn. Þá ber að hafa í huga að þegar þessar aðstæður koma upp er einnig uppi ótti um að alvarleg bilun geti verið orsök vandans en sem betur fer var það ekki raunin í þessu tilfelli.
Í dag er staðan sú að ekki er þörf á að hafa uppi sérstakar ráðstafanir vegna vatnsnotkunar. Við ítrekum þó að ætíð er skynsamlegt að að fara sparlega með vatnið og það er eitthvað sem Íslendingar almennt mættu gera meira af. Við þurfum og eigum að horfa á kalt vatn sem dýrmæta auðlind en ekki hversdagslega nauðsynjavöru sem bara rennur af sjálfu sér. Hér má einnig horfa til þess að það eru heildarhagsmunir okkar eigendanna að ekki sé farið í dýrar fjárfestingar í vatnsveitunni fyrir óþarfa notkun á köldu vatni.
Að lokum vil ég ítreka þakkir mína til bæjarbúa þegar þeir brugðust af ábyrgð við beiðni okkar í síðustu viku og vona jafnframt að við munum eiga gott samstarf við alla viðskiptavini okkar hér eftir sem hingað til.
Helgi Jóhannesson
Forstjóri Norðurorku hf.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15