PCC Bakki Silicon hf. sem er íslenskt dótturfélag PCC SE í Þýskalandi hefur skrifað undir samning við Landsvirkjun um kaup á raforku unninni úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Fyrirtækið hyggst reysa kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík og gera áætlanir ráð fyrir að orkuþörfin verði 52 MW að afli eða 456 GWstundir af raforku á ári. Er þá miðað við að framleidd verði allt að 32 þúsund tonn af kísilmálmi árlega en stefnt er að því að framleiðsla hefjist í árslok 2015.
„Við erum ánægð með að geta boðið PCC og þennan iðnað velkominn í stækkandi viðskiptavinahóp Landsvirkjunar. Kísilmálmframleiðsla á spennandi framtíðarmöguleika á Íslandi þar sem við getum boðið raforku á samkeppnishæfustu kjörum í Evrópu. Fyrirtækið er enn ein góð viðbót við viðskiptavinahóp okkar og eykur fjölbreytileika hans, sem er eitt af markmiðum markaðsstefnu okkar," segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. „Jafnframt mun verkefnið styrkja iðnaðaruppbygginguna á Norðausturlandi, sem er með áhugaverðustu svæðum til iðnaðarþróunar í Evrópu.“ Segir í frétt Landsvirkjunar af málinu. Þar kemur einnig fram að samningurinn sé undirritaður með fyrirvörum um leyfisveitingar, nauðsynlega samninga við íslenska ríkið, Landsnet sem og fjárfestingarsamninga sem stefnt er að verði lokið vorið 2013.
Um PCC:
PCC myndar alþjóðlegan hóp fyrirtækja sem starfa undir forystu PCC SE með aðsetur í Duisburg, Þýskalandi. Starfsmenn PCC eru um 2.300 í yfir 70 dótturfélögum og tengdum félögum með starfsemi í 12 löndum. Framleiðsla og sala PCC fer fram á þremur sviðum, efnavöru, orku og flutningaþjónustu. Velta ársins 2011 var 614,8 milljónir evra. Nánar um PCC á www.pcc.eu
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15