Það er gömul saga og ný að áður en hafinn er gröftur á götum eða frá húsum er grundvallaratriði að vita hvar lagnir eru. Af því kann að hljótast mikill kostnaður og óþægindi á allan hátt ef svo óheppilega vill til að lagnir fara í sundur. Þetta á við um allar lagnir en undir Norðurorku heyra rafstrengir, hitaveitulagnir, vatnsveitulagnir og fráveitulagnir.
Til þess að hafa góða sýn yfir lagnakerfið á Akureyri hefur Norðurka á undanförnum árum byggt upp öflugan gagngrunn sem veitir miklar upplýsingar um staðsetningu lagna, hvar þær eru, á hversu miklu dýpi, aldur þeirra o.s.frv.
Arnaldur B. Magnússon, verkefnastjóri hjá Norðurorku, segir að út frá GPS mælingum séu allar lagnir teiknaðar inn í gagngrunninn í MicroStation og með forriti frá danska fyrirtækinu Orbicon séu settar frekari upplýsingar inn í kerfið um lagnirnar. Á kortasjánni www.map.is/no eru öllum aðgengilegar grunnupplýsingar um lagnirnar en ítarlegri upplýsingar eru inn í gagnagrunninum og einungis aðgengilegar starfsmönnum Norðurorku en þær getur fólk fengið með því að hafa samband við Teiknistofu Norðurorku.
Norðurorka yfirtók fráveitu Akureyrar um áramótin 2013-2014 og um leið tók fyrirtækið yfir gagnagrunn sem Akureyrarbær hafði sett upp um fráveitulagnir í bænum. Þeirri vinnu var ekki lokið en Norðurorka hefur haldið henni áfram og bætt við upplýsingum af uppdráttum inn í gagnagrunninn.
„Það eru gríðarlega miklar upplýsingar í þessum gagnagrunni. Þó eru enn nokkur göt þar sem við höfum engin gögn til þess að byggja á frá fyrri tíð en götunum fækkar þó óðum. Allar nýframkvæmdir eru GPS-mældar. Annað hvort af verktökum eða starfsmönnum Norðurorku. GPS mælingar hófust að marki árið 2005 en síðan hefur tækninni fleygt fram og nákvæmnin aukist,“ segir Arnaldur.
Norðurorka hefur upplýsingar um staðsetningu raf-, hitaveitu- og vatnsveitulagna inn í hús, enda eru þær í eigu fyrirtækisins. „Fráveitulagnir frá lóðarmörkum eru á ábyrgð húseigenda eða byggingarverktaka og fylgja því teikningar af þeim með byggingarteikningum húsa. Fyrir eldra húsnæði eru þessar teikningar ekki alltaf tiltækar en fyrir nýrra húsnæði eiga þær allar að vera aðgengilegar. Skipulagsdeild Akureyrarbæjar heldur utan um þessar teikningar og veitir upplýsingar um þær,“ segir Arnaldur.
„Við munum halda áfram að efla þetta upplýsingakerfi enn frekar. Að baki er mikil og kostnaðarsöm vinna við að byggja kerfið upp en án nokkurs vafa hefur hún margborgað sig. Allar þessar upplýsingar á einum stað spara okkur tíma og peninga og því kemur kostnaðurinn til baka. Með fárra sentímetra skekkju getum við fundið lagnir og þannig komið í veg fyrir mikið tjón á þeim og þessar nákvæmu upplýsingar gera það að verkum að auðveldara er að finna bilanir í kerfinu, skipuleggja viðhald og vinna nýjar tengingar,“ segir Arnaldur B. Magnússon.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15