Undirbúningur fyrir byggingu hreinsistöðvar fráveitu við Sandgerðisbót hefur staðið í nokkurn tíma. Umhverfismat á framkvæmdinni og áhrifum hennar er einn þáttur hans. Skýrsla um matið og áhrif framkvæmdarinnar, svo nefnd frummatsskýrsla er nú aðgengileg fyrir alla þá sem vilja kynna sér málið og eftir atvikum gera athugasemdir (www.no.is).
Í hreinsistöðinni verður skólp frá Akureyri grófhreinsað og því dælt út í sjó um neðansjávarlögn sem endar 400 metrum frá landi og er á 40 metra dýpi. Þar fer skólpið í sjávarstrauma, dreifist og þynnist út. Markmiðið með þessu er að tryggja eins og frekast er kostur að skólpið fari það langt frá ströndinni að saurkóligerlarnir verði hluti af náttúrulegu niðurbroti í sjónum en berist ekki að ströndinni. Grófa efninu sem síað er frá í stöðinni verður pakkað og það fært til urðunar.
Samhliða þessu hefur verið gerð vöktunaráætlun sem felur í sér að fylgst er með ástandi sjávarins með reglubundnum mælingum.
Almennur kynningarfundur um hreinsistöðina og frummatsskýrsluna verður haldinn í Menningarhúsinu Hofi fimmtudaginn 17. nóvember kl. 17:00.
Allir velkomnir!
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15