20. júl 2011

Landsvirkjun gjörbreytir söluskilmálum á ótryggri orku

Höfuðstöðvar Landsvirkjunar
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar

Landsvirkjun hefur sagt upp heildsölusamningum um sölu á svo nefndri ótryggri orku gagnvart smásöluaðilum raforku og þar með samningi Fallorku ehf. dótturfélags Norðurorku hf.

Ástæðuna segir Landsvirkjun vera þá að unnið sé að endurskipulagningu á skilmálum sölunnar og er stefnt að því að nýjir skilmálar taki gildi um næstkomandi áramót og þá boðið upp á nýja samninga samkvæmt því.

Ótrygg orka er nefnd svo þar sem meginatriði skilmálanna eru þau að heimilt er að skerða orku afhendingu með tiltölulega skömmum fyrirvara og kaupandinn skuldbindur sig til þess að eiga tiltækt varaafl til þess að mæta skerðingunni eða hitt að hætta samsvarandi raforkunotkun á meðan á skerðingunni stendur.  Á þessum grundvelli hefur verð á ótryggri eða skerðanlegri orku verið mun lægra en forgangsorku.

Þeir nýju skilmálar sem Landsvirkjun hefur kynnt hafa valdið verulegri óánægju meðal viðskiptavina Norðurorku hf. og dótturfélagsins Fallorku ehf. þar sem verulega er hert á skilmálum um lágmarkskaup auk þess sem verð orkunnar mun hækka til mikilla muna samkvæmt áætlunum Landsvirkjunar.

Í ljósi þess hve miklar breytingarnar eru og hve mikil áhrif þær munu hafa á viðskiptavini Norðurorku hf. og Fallorku ehf. hefur verið óskað eftir því við Landsvirkjun að fulltrúar fyrirtækisins hitti þá viðskiptavini sem í dag eru með samninga um ótrygga orku og skýri breytingarnar og svari fyrirspurnum um málið.  Er gert ráð fyrir að sá fundur verði haldinn í ágúst næstkomandi, áður en að endanlegir samningsskilmálar verða kynntir.