Norðurorka efnir til ljóðasamkeppni meðal grunnskólabarna á þjónustusvæði sínu í Eyjafirði. Þema ljóðasamkeppninar er „VATNIГ. Ljóðasamkeppnin fer þannig fram að dreift er þátttökublöðum í 16 grunnskóla á Eyjafjarðarsvæðinu. Keppt er í þremur flokkum, (I) nemendur í 1. til 4. bekk, (II) í 5. til 7. bekk og (III) í 8. til 10. bekk.
Með ljóðasamkeppninni vill Norðurorka hvetja grunnskólanemendur til þess að nýta ljóðformið til tjáningar um hvað eina sem tengist vatni og engin takmörk á efnistökum, þótt í kynningarbréfi sé kastað fram spurningunni „hvers virði er mér vatnið?“ Mörg þekkjum við ljóð sem hafa tengingu við vatnið og eitt af þeim þekktari er ljóð Steins Steinarr „Tíminn og vatnið“ sem hefst svona;
Tíminn er eins og vatnið,
og vatnið er kalt og djúpt
eins og vitund mín sjálfs.
Viðfangsefnin eru endalaus og vatnið er út um allt og kemur við sögu í lífi okkar hvern dag eins og minnt er á í kynningarbréfi Norðurorku á ljóðasamkeppninni. Við vitum að einhverjir nememdur munu geta nýtt ljóðasamkeppnina í náminu hjá sér núna á vordögum sem er auðvita mjög ánægjulegt. Þá er óskandi að á heimilunum verði til umræða, milli barnanna og foreldra um vatnið og með hvaða hætti hægt er að koma hugsunum um vatnið í ljóðlínur, hvort sem þær eru hefðbundin ljóð með rími og höfuðstöfum eða óhefðbundin ljóð.
Norðurorka veitir peninga og bókaverðlaun fyrir þrjú ljóð í hverjum flokki. Í dómnefnd keppninar eru Reynir Hjartarson kennari, Hólmfríður Andersdóttir bókavörður hjá Amtsbókasafninu og Birgir Sveinbjörnsson kennari, með dómnefndinni starfar fulltrúi Norðurorku Baldur Dýrfjörð. Skilafrestur er til og með 13. maí n.k. Með þátttöku sinni í ljóðasamkeppninni veitir höfundur Norðurorku rétt til að birta ljóðin án sérstaks endurgjalds en ætíð skal geta höfundar.
Hér má sjá auglýsingu um ljóðasamkeppnina.
Hér má sjá þátttökueyðublað keppningar – ljóðabréfið sem við köllum svo.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15