Laugardaginn 19. janúar verður unnið að viðhaldi í tveimur dreifistöðvum Norðurorku sem veldur rafmagnsrofi á þeim svæðum sem þær anna. Um er að ræða reglubundið viðhald á dreifistöðvum og dreifikerfi Norðurorku þar sem verið er að endurnýja eldri búnað til að auka rekstrar- og persónuöryggi. Norðurorka er með á annað hundrað dreifistöðvar í rekstri.
Dreifistöðvarnar sem um ræðir, númer 34 (staðsett er við Hlíðarbraut) og nr. 44 (staðsett í Krossanesi), eru teknar út á sama tíma þar sem það er kerfislega hentugt. Það að vinna þetta samhliða styttir einnig heildartíma straumleysis og minnkar þar með óþægindi viðskiptavina.
Á myndunum tveimur hér að neðan má sjá þau svæði sem fara út á meðan á vinnu stendur. Báðar stöðvarnar verða teknar út kl. 05.00 á laugardagsmorgun en rétt er að ítreka að lengd rofs er mismunandi eftir svæðum.
Vegna vinnu við dreifistöð 34 verður lokað fyrir rafmagn í hluta Holtahverfis og Nesjahverfis (sjá mynd hér að neðan). Áætlaður tími er frá 05.00 - 11.30 eða á meðan vinna stendur yfir.
Vegna vinnu við dreifistöð 44 verður lokað fyrir rafmagn í Krossanesi, Ægisnesi, Óðinsnesi, Sjafnarnesi og Ytra Krossanesi (sjá mynd hér að neðan). Áætlaður tími er frá 05.00 - 14.30 eða á meðan vinna stendur yfir.
Verkefni sem þessi þarfnast góðs undirbúnings og því hefur starfsfólk Norðurorku verið að undirbúa verkið síðustu vikur. Það eru 14 rafvirkjar og annað starfsfólk sem taka þátt í vinnunni og mæta til vinnu fyrir klukkan 5 á laugardagsmorgun.
Um leið og við biðjum viðskiptavini okkar velvirðingar á þeim óþægindum sem þessar aðgerðir hafa í för með sér minnum við á að hægt er að kynna sér góð ráð við þjónusturofi hér.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15