Mæladagur SAMORKU var haldinn í gær. Þar voru flutt mörg fróðleg erindi um fjölbreyttar hliðar mælinga í vatns- og raforkudreifingu.
Mikil þróun hefur orðið í mælingum bæði tengt rekstri veitukerfanna sem og í notkunarmælingum hjá viðskiptavinum. Víða erlendis hafa verið teknir í notkun SMART-mælar sem eru þannig uppbyggðir að þeir safna nákvæmum upplýsingum um notkun viðkomandi notanda innan dagsins eða eftir atvikum innan hverrar klukkustundar. Mælarnir geta verið útbúnir þannig að þeir safni þessum upplýsingum og geymi þar til komið er með þar til gerðan fjarálestrarbúnað að þeim, sem þá sendir mælinum skilaboð um að senda upplýsingar úr honum til baka í fjarálestrarbúnaðinn. Er þá ýmist ekið eða gengið fram hjá húsi notandans, en ekki nauðsynlegt að banka upp á og komast inn.
Einnig getur mælirinn verið búinn sendi sem sendir upplýsingarnar með reglubundnum hætti til móttökustöðvar sem t.d. getur verið staðsett í næstu spennistöð og þaðan er þá hægt að senda upplýsingarnar eftir ljósleiðara í höfuðstöðvar viðkomandi dreifiveitu.
Þar sem mælarnir geta mælt notkun frá mínútu til mínútu er hægt að byggja gjaldskrá orkusölufyrirtækja og dreifiveitu upp með þeim hætti að taxtinn sé ódýrari þegar almennt er lítið álag í kerfinu, en dýrari þegar álagið er mikið. Með því móti má dreifa álaginu meira en ella sem aftur getur haft áhrif á hversu öflug kerfin þurfa að vera með tilliti til toppálags.
Þá gefa þessir mælar svigrúm til orkumælinga í hitaveitukerfum í stað rúmmetramælinga eingöngu og sem dæmi þá hefur Norðurorka hf. tekið upp slíka mælingu í Reykjaveitu. Reykjaveita þjónar Fnjóskadal og Grýtubakkahreppi, en í þeirri veitu er mjög mikill munur á hita vatnsins næst vinnslusvæðinu að Reykjum og síðan aftur niður á Grenivík sem er í um 60 kílómetra fjarlægð frá vinnslusvæðinu. Af þessum ástæðum er mun réttlátara að mæla orkuinnihald heita vatnsins fremur en að mæla eingöngu rúmmetrafjöldann sem viðskiptavinurinn kaupir.
Enn sem komið er, er umræddur mælabúnaður mjög dýr og þess vegna óraunhæft að skipta honum út fyrir rúmmetramæla í öllum veitum. Kom fram í máli Þorvaldar Finnbogasonar hjá Orkuveitu Reykjavíkur að það myndi kosta fyrirtækið rúmlega þrjá milljarðakróna að skipta yfir í nýja tækni. Þetta liggur í því að hefðbundinn rúmmetramælir er allt að átta til níu sinnum ódýrari en nýr SMART-mælir, þ.e. stafrænn mælir með tilheyrandi söfnunar- og fjarskiptabúnaði. Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að það er viðskiptavinurinn sem mun bera þennan kostnað á endanum og því mjög óraunhæft að fara í þessa framkvæmd meðan orkuverð er eins lágt á Íslandi og raun ber vitni og orkuframboð mun meira en fullnægjandi.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15