Norðurorka hefur undirritað samning um kaup á gashreinsistöð frá fyrirtækinu Greenlane – Flotech í Svíþjóð. Stöðin hreinsar metan úr svonefndu hauggasi sem vinna á úr gömlu sorphaugunum á Glerárdal.
Mjög góð reynsla er komin á stöðvarnar sem Greenlane - Flotech hefur framleitt undanfarin ár og þær byggja á þekktum tæknilausnum sem eru margreyndar.
Stöðin er svonefnd vatnshreinsistöð sem vísar til þess að vatn gegnir lykilhlutverki í að skilja metangasið frá öðrum lofttegundum í hauggasinu. Stöðin er 130 Nm³ að stærð sem þýðir að hún á að geta annað um 600.000 Nm³ á ári miðað við 8.000 tíma keyrslu. Þetta magn samsvarar um 600 svonefndum fólksbíla-ígildum en áætlanir gera ráð fyrir að stórnotendur þ.e. stærri bílar verði einnig töluverður hluti viðskiptavinanna. Í áætlunum verkfræðistofunnar Mannvits um magn hauggass á Glerárdal er miðað við að gasið í haugunum geti enst til ársins 2030 að lágmarki miðað við ofangreinda vinnslu.
Verð stöðvarinnar með uppsetningu er um 115 milljónir króna en þá er ótalinn kostnaður við jarðvegsframkvæmdir við undirstöður og lóð sem verður austan við hitaveitutank Norðurorku hf. við Súluveg. Afgreiðslustöð fyrir metanið mun hins vegar rísa á lóð sem verður á gatnamótum Súluvegar og Miðhúsabrautar vestan Mjólkursamsölunnar. Afgreiðslustöðin samanstendur af tækjum sem þjappa gasinu, geymslukútum og síðan búnaði til að dæla gasinu á ökutæki. Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á kaup á þessum búnaði.
Áætlanir gera ráð fyrir að hægt verði að taka stöðina í notkun síðsumars 2013.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15