Norðurorka hefur lengi lagt mikla áherslu á umhverfismál og kemur skýrt fram í umhverfisstefnu fyrirtækisins að það vill minnka kolefnisspor sitt. Norðurorka hefur unnið að ýmsum verkefnum á þessu sviði á undanförnum árum.
Árið 2013 byggði fyrirtækið metanhreinsistöð til að vinna metangas úr gömlu sorphaugunum á Glerárdal. Þar með var dregið verulega úr því metangasi frá haugunum sem annars myndu streyma út í andrúmsloftið. Frá því að hreinsistöðin var tekin í notkun fyrir um fimm árum hefur framleiðsla og sala á metani aukist jafnt og þétt og á síðasta ári jafngilti hún um 2.900 tonnum af koltvísýringi (CO2). Þrír strætisvagnar Strætisvagna Akureyrar eru knúnir með metani og fjórir minni bílar sem notaðir eru í ferliþjónustu fatlaðra geta bæði gengið á metani og bensíni.
Flugferðir starfsfólks Norðurorku innanlands eru kolefnisjafnaðar með gróðursetningu trjáa. Utan um þetta verkefni heldur Vistorka, dótturfyrirtæki Norðurorku, í samstarfi við Skógræktarfélag Eyfirðinga.
Við höfuðstöðvar Norðurorku á Rangárvöllum var á síðasta ári hafist handa við uppsetningu tengla fyrir hleðslu rafmagnsbíla og þegar framkvæmdum verður lokið er gert ráð fyrir að unnt verði að hlaða 41 bíl á bílastæðinu.
Á árinu 2020 verður reist reiðhjólaskýli fyrir starfsfólk og viðskiptavini Norðurorku þar sem hægt verður að koma fyrir allt að 35 hjólum með möguleika á rafhleðslu. Starfsfólk Norðurorku hefur verið ötult í því að hjóla og skráði það 4.599 daga á síðasta ári sem það ferðaðist með vistvænum hætti til og frá vinnu – eða um 30% allra ferða starfsfólks til og frá vinnu. Í átakinu Hjólum í vinnuna á síðasta ári var starfsfólk Norðurorku í fyrsta sæti af fimmtán fyrirtækum á Akureyri í flokknum 40-69 starfsmenn.
Á árinu 2018 batt Norðurorka um 3.100 tonn af koltvísýringi en losaði um 550 tonn frá starfsemi sinni. Langstærsti hluti bindingar- innar er föngun á gasinu frá sorphaugunum á Glerárdal en einnig er umtalsverð binding á skógræktar- svæðum í eigu Norðurorku.
„Norðurorka er með gott kolefnisspor, þ.e. við bindum meira en við losum. En þrátt fyrir að við séum að binda mikið kolefni felum við ekki að við losum líka kolefni út í andrúmsloftið og það viljum við markvisst minnka. Við endurnýjun á bílaflotanum könnum við alltaf hvort möguleiki sé á að kaupa vistvænni bíla. Við höfum náð góðum árangri í þessum efnum og nú eru 43% bíla fyrirtækisins annað hvort knúnir metani eða rafmagni. Við munum markvisst halda áfram í þessum efnum.
Annað sem við leggjum mikla áherslu á er flokkun úrgangs. Fyrirtækið er og hefur verið í gríðarlega umfangsmiklum verkefnum, bygging fráveituhreinsistöðvar í Sandgerðisbót, heitavatnslögn frá Hjalteyri og kaldavatnslögn út úr Vaðlaheiðargöngum. Þessum framkvæmdum fylgir mikið sorp en við leggjum áherslu á að skila því frá okkur flokkuðu. Að þessum verkefnum loknum mun sorp frá Norðurorku minnka en eftir sem áður verður númer eitt, tvö og þrjú að flokka allan úrgang frá fyrirtækinu. Við höfum náð mjög góðum árangri í flokkun sorps og á síðasta ári var óflokkaður úrgangur um 15% úrgangs frá fyrirtækinu. Þessa tölu viljum við lækka enn frekar,“ segir Hrönn Brynjarsdóttir, gæða-, umhverfis- og öryggisstjóri Norðurorku.
Hún segir að umhverfisvitund starfsfólks Norðurorku sé mikil og að það megi almennt segja um Akureyringa. Miklum árangri hafi verið náð í þessum efnum á undanförnum árum en alltaf megi gera betur og að því verði unnið. Hún segir að þessa dagana sé starfsfólk Norðurorku í stefnumótun til næstu ára og ánægjulegt sé að segja frá því að í þeirri vinnu komi skýrt fram vilji starfsfólks til þess að leggja enn frekari áherslu á umhverfismálin. „Starfsfólk Norðurorku er stolt af því sem fyrirtækið gerir í þessum efnum og vill gera enn betur. Mér finnst umhverfisvitund starfsfólks Norðurorku vera mikil og það er mjög ánægjulegt,“ segir Hrönn.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15