18. okt 2013

Mistök í reikningagerð

Rúmlega 700 viðskiptavinir Norðurorku hf. hafa fengið senda ranga reikninga til sín síðastliðna daga.  Ljóst er að sérkennileg og enn óútskýrð mistök hafa verið gerð.

Norðurorka hf. er með þjónustusamning við hugbúnaðarfyrirtæki og við prentsmiðju sem felur í sér að fyrir hver mánaðarmót er send skrá yfir þá reikninga sem á að prenta og senda út það skiptið.  Þegar viðskiptavinir Norðurorku fóru skoða reikningana sem bárust í þessari viku kom í ljós að um er að ræða reikninga fyrir febrúar með gjalddaga í mars 2013. Með einhverjum hætti hefur gömul skrá verið virkjuð og send og ekki nægileg rýni í ferlum til að koma í veg fyrir mistökin.

Um leið og viðskiptavinir eru beðnir velvirðingar á þessum mistökum eru þeir beðnir að henda umræddum reikningum.  Ekki á að vera hægt að greiða reikningana í banka og þeir birtast ekki í heimabanka viðkomandi.

Norðurorka mun í framhaldi af þessu fara í gegnum alla ferla og samskipti við þjónustuaðila og milli þeirra til að tryggja að mistökin endurtaki sig ekki.