17. okt 2014

Náttúrugæði í 100 ár - saga veitnanna á Akureyri

 

Út er komin bókin „NáttúNáttúrugæði í 100 ár saga veitnanna á Akureyrirugæði í 100 ár saga veitnanna á Akureyri". 

Árið 1914 telst stofnár Vatnsveitu Akureyrar en það ár voru Hesjuvallalindir í Hlíðarfjalli virkjaðar í þágu íbúa á Oddeyri og Akureyri og hafa þær æ síðan fætt vatnsþyrsta Akureyringa. Í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá stofnun vatnsveitunnar hefur verið tekin saman saga veitnanna á Akureyri, vatnsveitu, rafveitu og hitaveitu.
Saga Rafveitu Akureyrar var áður rituð af Gísla Jónssyni menntaskólakennara, en sögu vatnsveitu og hitaveitu hefur Jón Hjaltason sagnfræðingur ritað og þær síðan felldar saman á eina bók.

Kalt vatn úr krana, hiti af ofni, rafljós í vetrarmyrkri; allt sjálfsagðir hlutir - eða hvað?  Sannleikurinn er sá að saga veitnanna á Akureyri er baráttusaga.
Saga vatnsskömmtunar, rafmagnsleysis í svartasta skammdeginu og kappsfullrar - jafnvel örvætingarfullrar - leitar að heitu vatni.  En hún er líka saga sigra.  Akureyringar hafa því í hundrað ár - heila öld - notið náttúrugæða sem við á öndverðri 21. öld teljum nánast til náttúrulögmála.  Okkur er því öllum hollt að fræðast um forsendur hins sjálfsagða;  kalda vatnsins sem streymir eftir geðþótta okkar, rafmagnsins sem lýsir og eldar og heita vatnsins er yljar okkur daga og nætur.

Á fjórða hundrað ljósmyndir prýða þessa fróðlegu bók.

Saga veitnanna á Akureyri veitir einstæða sýn á hið "sjálfsagða" í veröld mannsins.