Neyðarstjórn Norðurorku hefur verið virkjuð vegna slæmrar veðurspár. Miðað við spár og viðvaranir er talið líklegt að truflanir verði á flutningskerfi rafmagns en slíkt getur haft áhrif á kerfi Norðurorku. Ekki einungis á dreifiveitu rafmagns á Akureyri heldur einnig á hita-, vatns- og fráveitu þar sem margar dælur eru víða í kerfunum á öllu starfssvæðinu.
Í samræmi við tilmæli frá Aðgerðarstjórn almannavarna þá höfum við hvatt okkar starfsfólk til að fara ekki af stað út í óvissuna í fyrramálið. Mikilvægir staðir í kerfum okkar verða þó mannaðir frá kl. 5 í nótt, svo sem aðveitustöðvar rafveitu, vinnslusvæði og dælustöðvar hitaveitu, auk þess sem stjórnstöð neyðarstjórnar á Rangárvöllum verður mönnuð frá sama tíma.
Við munum reyna að svara öllum þeim erindum sem okkur berast en ef viðskiptavinir ná ekki inn til okkar í gegnum síma þá bendum við á tölvupóstfangið okkar no@no.is fyrir þau mál sem ekki þola bið.
Við munum uppfæra þessa frétt eftir atvikum.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15