1. júl 2011

Norðurorka hf. kannar möguleika á samstarfi um vinnslu hauggassins á Glerárdal

Frá boruninni á Glerárdal
Frá boruninni á Glerárdal
Borað var í sorphauginn á Glerárdal í apríl og í framhaldi af því hefur verið fylgst með holunum og gasmagnið og samsetning þess mæld.

Með samningi við Akureyrarbæ tók Norðurorka að sér að rannsaka mögulegt magn af hauggasi með það fyrir augum að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir um hvort á svæðinu sé vinnanlegt magn af hauggasi til metangasvinnslu.

Í framhaldinu gerði Norðurorka samninga við Ræktunar-samband Flóa og Skeiða um borun á rannsóknarholum og við verkfræðiskrifstofuna Mannvit um ráðgjöf, mælingar og skýrslugerð um haugana sem mögulegt vinnslusvæði gass.

Borað var í hauginn í apríl og í framhaldi af því hefur síðan verið fylgst með holunum og gasmagnið og samsetning þess mæld.  Mannvit verkfræðistofa hefur nú skilað skýrslu um málið og þar kemur fram að metanmyndun í haugnum nemi nú allt að 3,5 milljónum Nm3 á ári og kemur það heim og saman við þær hugmyndir sem áður lágu fyrir.

Um nokkurt skeið hafa legið fyrir hugmyndir um að nýta gas úr haugunum til framleiðslu koltrefja en viljayfirlýsing milli Akureyrarbæjar og Strokks Energy ehf. um það verkefni rennur út í upphafi næsta árs.  Ekki liggur fyrir hvort sú yfirlýsing verður endurskoðuð en Strokkur er að leita nýrra samstarfsaðila um það verkefni eftir að slitnaði upp úr samstarfi við Ítalskan aðila um núverandi verkefni.  Koltrefjaverksmiðja gæti nýtt rúma 1,5 milljón Nm3 af metangasi.

Önnur verkefni sem til greina koma er framleiðsla á bifreiðaeldsneyti en mikil reynsla er eins og kunnugt er komin á slíka nýtingu á höfuðborgarsvæðinu.  Vinnsla á hauggasi felur í sér söfnun á gasinu með tilheyrandi söfnunarkerfi (borholur og lagnir) en þaðan er því síðan komið til hreinsunar í sérhæfðri hreinsistöð.  Eftir að gasið hefur verið hreinsað er metaninu dælt í lögn frá hreinsistöðinni að gassölustöð (hjá Sorpu/Metan frá Álfsnesi niður á Bíldshöfða).  Nokkrir aðilar hafa sýnt áhuga á samningi um aðgang að „metangaslindinni“ á Glerárdal og er skoðun þeirra verkefna í gangi.

Nánari upplýsingar um metangas má finna á heimasíðu Metan hf. sem er í eigu SORPU bs., Orkuveitu Reykjavíkur, REI og N1 hf.

Sömuleiðis má á heimasíðu Metan hf. finna nánari upplýsingar um metangasið, orkuinnihald, mælieininguna Nm3 o.fl.