22. maí 2018

Ný aðveituæð hitaveitu frá Hjalteyri - 1. áfangi

Forsagan

Hjalteyrarsvæðið sem virkjað var árið 2002 gefur um 60% af hitaveituvatni Akureyringa. Ástæða mikillar afkastagetu jarðhitakerfisins við Hjalteyri er talin sú að lekt bergs sé betri og aðstreymi vatns greiðara en þekkist á öðrum vinnslusvæðum Norðurorku. Þetta má væntanlega rekja til sprungumyndunar af völdum jarðskjálfta í brotabeltinu við utanverðan Eyjafjörð. Þar af leiðandi er afkastageta jarðhitakerfisins við Hjalteyri mun meiri en annarra jarðhitasvæða sem Norðurorka nýtir.

Undanfarin ár hefur verið stöðugur vöxtur í heitavatnsnotkun Akureyringa þannig að komið er að ákveðnum þáttaskilum í rekstri hitaveitunnar sem er nú, yfir köldustu vetrardagana, á fullum afköstum og lítið má út af bregða í rekstrinum. Hingað til hafa áætlanir gert ráð fyrir frekari öflun vatns í Eyjafjarðarsveit þar sem innviðir þess svæðis eru allir við vöxt. Eftir árangurslausa borun á vinnslusvæðinu að Botni sumarið 2016 var ákveðið að grípa til annarra ráðstafana til að mæta þessari auknu orkuþörf.

Ný Hjalteyrarlögn

Hjalteyrarkerfið getur að mati Íslenskra orkurannsókna staðið undir meiri vinnslu en nú er, en flutningsgeta aðveitunnar er takmarkandi þáttur í nýtingu vinnslusvæðisins. Hönnun á nýrri aðveituæð frá vinnslusvæðinu að Hjalteyri ásamt hönnun á bættri tengingu aðveitunnar við bæjarkerfið er nú lokið en í því felast m.a. breytingar á tengingum við meginflutningskerfið innan Akureyrar og á dælustöð við Þórunnarstræti.  Hitaveitukerfið á Akureyri var í upphafi hannað með það í huga að aðveitulagnir komi að sunnan þ.e. frá Eyjafjarðarsveit, því þarf að breyta miklu í kerfinu.

Því hefur verið lagt af stað í áfangaskipta lagningu nýrrar aðveituæðar frá Arnarnesi. Um er að ræða mikla fjárfestingu eða rúma tvo milljarða í heild með borunum og dælubúnaði. Borun nýrrar viðbótarholu á Arnarnesi er í gangi en jarðborinn Sleipnir frá Jarðborunum hf. hóf borun í byrjun maí sl. Nú er að fara af stað lagning nýrrar 500 mm lagnar innanbæjar þ.e. frá dælustöð Norðurorku á Glerártorgi og út fyrir Hlíðarbraut og er gert ráð fyrir að því verki ljúki í haust.
Næstu ár verður síðan haldið áfram í áföngum, næst í norðri frá Arnarnesi að Ósi. Gamla 300 mm aðveitulögnin verður í samhliða nýtingu.

Það er von okkar að ný Hjalteyrarlögn (og eldri lögn) muni duga samfélaginu við Eyjafjörð næstu áratugina. Lögnin er einnig hönnuð með þann möguleika í huga að lengja hana til norðurs að jarðhitavæðinu við Syðri-Haga/Ytri-Vík sem er í eigu Norðurorku og jafnvel að tengja hana hitaveitukerfi Dalvíkurbyggðar við Birnunesborgir.

Hér að neðan má sjá hluta af fyrsta áfanga verkefnisins en hægt er að stækka myndina með því að smella á hana.