19. feb 2014

Norðurorka styður við rannsóknasjóð Háskólans á Akureyri

Háskólinn á Akureyri og Norðurorka gera samning um eflingu rannsókna við Háskólann

Í dag var undirritaður samningur milli Norðurorku og Háskólans á Akureyri sem felur í sér að Norðurorka styrkir rannsóknarstarf við Háskólann með framlagi í Rannsóknarsjóð skólans.  Um er að ræða árleg framlög 2014, 2015 og 2016 samtals að fjárhæð 2,1 milljón króna.  Fram kom af hálfu Helga Jóhannessonar forstjóra að félaginu væri mikil ánægja að því að geta stutt við rannsóknarstarf skólans og starfsmanna hans.  Stefán B. Sigurðsson rektor þakkaði fyrir hönd skólans framlagið í rannsóknarsjóðinn og sagði skólanum það mjög mikilvægt að eiga gott samstarf við atvinnulífið og miklir gagnkvæmir hagsmunir væru fólgnir í virku rannsóknarstarfi jafnt í bráð og lengd.

Rannsóknasjóður HA veitir styrki til kennara og sérfræðinga sem starfa við háskólann. Úthlutað er úr sjóðnum árlega í samræmi við fjárhag hans og eftir umsóknum sem til hans berast.

Í reglum Rannsóknasjóðs segir:  “Rannsóknasjóður Háskólans á Akureyri hefur það hlutverk að efla rannsóknir og vísindastörf á vegum Háskólans. Fé sjóðsins kemur af fjárveitingum á fjárlögum til háskólans samkvæmt ákvörðun háskólaráðs. Háskólaráð getur kveðið sérstaklega á um aðrar leiðir til fjáröflunar og tekið við fjárframlögum einstaklinga, stofnana og fyrirtækja í sjóðinn. Í stjórn sjóðsins sitja fimm manns, skipaðar af háskólaráði. Stjórnin hefur umsjón með fjárreiðum sjóðsins í umboði háskólaráðs og úthlutar úr sjóðnum. Við mat á umsóknum um styrki til verkefna skal fyrst og fremst fara eftir vísindagildi verkefnanna.”

Myndir frá undirritun samningsins;

Stefán B. Sigurðsson rektor og Helgi Jóhannesson forstjóri

Frá undirritun samnings um stuðning við rannsóknarsjóð HA Stefán B Sigurðusson rektor og Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku

Frá undirritun samnings um stuðning við rannsóknarsjóð HA Stefán B Sigurðusson rektor og Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku