Norðurorka byggir nú nýtt tveggja hæða hús á Rangárvöllum, sunnan skrifstofu- og afgreiðslurýmis fyrirtækisins. Húsið hefur gengið undir vinnuheitinu „Orkugarðurinn“ eða hús númer átta. Gólfflötur hússins er samtals um 715 fermetrar.
Byggingarframkvæmdir hófust á síðastliðnu ári og er aðalverktaki BB-Byggingar ehf á Akureyri. Verkinu hefur miðað ágætlega og er húsið að taka á sig mynd, bæði að utan og innan. Þessa dagana er verið að undirbúa að klæða húsið að utan og innanhúss hafa verið settir upp milliveggir, unnið er í raflögnum o.fl. Ekki liggur fyrir hvenær húsið verður tilbúið til notkunar en áætluð verklok eru í lok september nk.
Stefán H. Steindórsson, sviðsstjóri veitu- og tæknisviðs Norðurorku, segir að í Orkugarðinum verði innréttað skrifstofuhúsnæði sem verður leigt út til fyrirtækja og stofnanana sem lengi hafa haft húsnæði á leigu fyrir starfsemi sína í öðrum húsum Norðurorku á Rangárvöllum. Um er að ræða Orkustofnun, ÍSOR – Íslenskar orkurannsóknir, Fallorku, Akureyrarbæ – umhverfismiðstöð og Landsnet. Stefán segir að núverandi leiguhúsnæði á Rangárvöllum sé farið að þrengja að starfsemi þessara stofnana og fyrirtækja og því verði aðstaðan allt önnur og betri með tilkomu nýja hússins. Jafnframt rýmkast þá um starfsemi Norðurorku. Í húsi 3, þar sem Orkustofnun, ÍSOR, Fallorka og umhverfismiðstöð Akureyrarbæjar eru nú með skrifstofuaðstöðu, verður í framhaldinu innréttaður nýr og stærri matsalur sem einnig mun nýtast sem bæði fundar- og móttökusalur fyrir bæði Norðurorku og framangreind fyrirtæki og stofnanir. Þegar hinn nýi matsalur verður tilbúinn til notkunar mun Norðurorka nýta núverandi matsal að mestu fyrir skrifstofur.
„Það hefur lengi þrengt að starfsemi okkar hér á Rangárvöllum en með þessu nýja húsi fyrir leigjendur okkar skapast rými fyrir stærri og betri matsal og einnig verður mögulegt að koma upp búningsaðstöðu fyrir kvenkyns starfsmenn á framkvæmdasviði. Í framhaldinu verður unnt að innrétta núverandi matsal fyrir viðbótar skrifstofurými sem lengi hefur verið þörf fyrir. Tengibygging er á milli hins nýja Orkugarðs og húss 3, þar sem nýr matsalur verður innréttaður. Eftir sem áður munu starfsmenn þeirra fyrirtækja og stofnana sem verða þar með starfsemi sína nýta sér mötuneyti Norðurorku,“ segir Stefán H. Steindórsson.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15