Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum valt olíubíll við bæinn Búðarnes í Hörgárdal í morgun. Viðbúnaður viðbragðsaðila var mikill enda varð óhappið inn á vatnsverndarsvæði Norðurorku sem nær m.a. inn að vatnaskilum á Öxnadalsheiði. Í bílnum voru um 3.000 lítrar af litaðri olíu. Óhappið varð við enda brúar yfir Hörgá og lá bíllinn á hliðinni á klettasnös. Sem betur fer varð olíumengun lítil, þar sem óverulegt magn olíu lak úr bílnum. Neysluvatnsdæling Norðurorku frá vatnstökusvæðinu á Vöglum, sem er um 18 km neðar við ánna, var í kjölfar slyssins stöðvuð af öryggisástæðum. Menguðum jarðvegi hefur verið mokað upp og bíllinn fjarlægður. Mat Norðurorku og Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra er að olíulekinn hafi ekki áhrif á vatnstökusvæðið og að dæling geti hafist að nýju.
Sannarlega vorum við lánsöm í þetta skiptið að ekki fór verr. Norðurorka hf. þakkar þeim fjölmörgu viðbragðsaðilum sem að komu öguð og vel skipulögð vinnubrögð. Undanfarin misseri hefur mikil vinna verið lögð í að samhæfa viðbrögð Neyðalínunnar, Lögreglu, Slökkviliðs og Norðurorku vegna óhappa inn á vatnsverndarsvæðum félagsins. Sú vinna skilaði sér m.a. í dag.
Jafnvel það sem kann að virðast minniháttar óhapp getur gert vatnstökusvæði óstarfhæft til lengri tíma. Því er mikilvægt að vegfarendur sem og ábúendur á og við vatnsverndarsvæði séu meðvitaðir um mikilvægi vatnsverndar og tilkynni strax óhöpp sem talið er að geti leitt til mengunartjóns
Í kortasjá ( www.map.is/no/ ) sem einnig er hægt að nálgast í gegnum heimasíðu Norðurorku ( www.no.is) eru sýnd vatnsverndar- og vatnstökusvæði Norðurorku hf.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15