23. sep 2013

OLÍS og Norðurorka hf. gera með sér samstarfssamning um sölu og markaðssetningu á metani

OLÍS og Norðurorka hf. hafa gert með sér samstarfssamning um sölu og markaðssetningu á metani. Samstarfssamningurinn felur í sér að OLÍS annast sölu og markaðssetningu á því metani sem Norðurorka framleiðir úr hauggasi úr gömlu sorphaugunum á Glerárdal við Akureyri.

Fréttatilkynning

OLÍS og Norðurorka hf. hafa gert með sér samstarfssamning um sölu og markaðssetningu á metani

Samstarfssamningurinn felur í sér að OLÍS annast sölu og markaðssetningu á því metani sem Norðurorka framleiðir úr hauggasi úr gömlu sorphaugunum á Glerárdal við Akureyri.

„Það hefur lengi legið í loftinu að semja við olíufélag um sölu- og markaðsmálin segir Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku hf.  Félagið er í grunninn framleiðsludrifið orkufyrirtæki og því töldum við árangursríkara að semja við OLÍS um sölu- og markaðssetningu eldsneytisins, enda þeirra sérgrein.“

OLÍS hefur aukið hlut sinn í metansölu en fyrirtækið gerði nýverið samning um kaup meginhluta þess metans sem framleitt er af SORPU hf. á höfuðborgarsvæðinu. OLÍS hefur einnig sett upp metanafgreiðslu við eldsneytisstöð sína í Mjóddinni í Reykjavík. „ Við hjá OLÍS erum mjög ánægð með að vera orðin leiðandi í sölu- og markaðssetningu metans á landsvísu segir Samúel Guðmundsson framkvæmdastjóri heildsölu- og rekstrarvörusviðs OLÍS“

Sjálfsafgreiðslustöð fyrir metan verður byggð við Miðhúsabraut á Akureyri rétt við Möl og Sand en hreinsistöðin við Súluveg austan hitaveitutankans við gatnamótin að Breiðholti. Áætluð framleiðslugeta er 600 þúsund Nm3 metans árlega sem svarar til árlegrar meðalnotkunar 600 fólksbíla.  Gert er ráð fyrir að hægt verði að vinna metan úr haugnum á Glerárdal fram til ársins 2030 a.m.k.

Áætlaður kostnaður við verkefnið er um 300 milljónir. Í sumar lauk borunum í sorphauginn en alls voru boraðar 45 holur. Frá holunum eru lagðar safnlagnir og síðan stofnlögn frá haugunum að fyrirhugaðri hreinsistöð.  Framangreindir lagnavinnu er að mestu lokið og á næstunni verða plön og undirstöður undir hreinsistöðina steypt.  Áætluð verklok fyrir verkið í heild sinni eru í janúar 2014 en all veruleg seinkun verður á afhendingu hreinsistöðvar sem verið er að smíða í Svíðþjóð.

Um 1.200 bílar á Íslandi geta brennt metani en af þeim eru um 15-20 á Akureyri. Þess er vænst að markaður vaxi hratt og er þar ekki síst horft til stórnotenda, s.s. þungaflutningabíla. Nýverið tók Akureyrarbær í notkun tvo ferlivagna sem nota metan sem orkugjafa. Einnig er Samskip með í notkun einn þungaflutningabíl sem að hluta brennir metani í ferðum milli Reykjavíkur og Akureyrar, sá bíll notar metan á við 20-30 fólksbíla.

Hauggas sem stígur upp af sorphaugum er um 21 x skaðlegra en koldíoxíð (CO2) sem myndast við bruna metans í bílvél. Nýting hauggassins á Glerárdal er því mjög stórt og veigamikið framlag til umhverfismála auk þess að ekki þarf að flytja inn jarðefnaeldsneyti fyrir þá bíla sem aka á metan.

Sýn samningsaðila er sú að hér fari saman umhverfismálin og hagsmuni neytenda með lækkun á eldsneytiskostnaði. Verið er að nýta „innlenda auðlind“ sem er við bæjardyrnar og um leið að draga úr gróðurhúsaáhrifum hauggassins sem sannanlega eru veruleg og á ábyrgð Akureyringa.

Hreinsistöð metan unnið úr hauggasi

Myndir að neðan: Unnið að grunni fyrir hreinsistöð

Unnið að grunni fyrir hreinsistöð

Unnið að grunni fyrir hreinsistöð