Formleg afhending á rafmagnsbíl til Norðurorku hf. fór fram hjá bílasölu Hölds í dag miðvikudaginn 11. september 2013. Um er að ræða Mitsubishi I-MiEv sem er fyrsti fjöldaframleiddi rafmagnsbíllinn í heiminum en hann kom fyrst á markað árið 2009. Bíllinn notar eingöngu rafmagn og mengar því ekki með CO² eins og bílar með mótor sem brennir jarðefnaeldsneyti.
Um 18% af þeirri orku sem nýtt er á Íslandi er innflutt jarðefnaeldsneyti og er það aðallega notað í samgöngum og fiskveiðum. Tækifæri Íslendinga til þess að minnka koltvísýringsmengun með notkun raforku í samgöngum er því raunhæfur kostur.
Tækninni í rafmagnsbílum fleygir stöðugt fram þó enn sé nokkuð í land að rafmagnsbílar geti keppt við hefðbundar bifreiðar þegar kemur að langkeyrslu. Rafmagnsbíllinn er hins vegar ótvíræður kostur á styttri vegalengdum innanbæjar og orkukostnaður hans er aðeins brot af hefðbundnum bíl. Ef miðað er við 20.000 km akstur á ári þá er áætlaður orkukostnaður um 34.000 kr. sem gerir um 350.000 kr. sparnað á ári ef miðað er við meðal bensín bíl.
Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku hf. segir það spennandi fyrir fyrirtækið að prófa svona bíl og mikilvægt að taka þátt í framþróuninni með því að reka rafmagnsbíl. Eftir eigi að koma í ljós hvernig bíllinn reynist í akureyskum vetraraðstæðum en það er einmitt eitt af því sem vert sé að prófa.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15