29. feb 2016

Rekstrartruflanir í metanframleiðslu

Fyrir helgi komu upp rekstrartruflanir í metanframleiðslu Norðurorku sem lýsti sér þannig að hauggasþrýstingur frá haugunum féll.  Þetta hafði síðan þær afleiðingar að framleiðsluferlið fór úr skorðum og gas sem fór í afgreiðslustöð var ekki af réttum gæðum. Nokkuð af bílum fengu gallað gas inn í tanka sína.

Við skoðun kom í ljós að allt of mikið köfnunarefni var í gasinu og það því ekki brennanlegt í bílvélum. Við þessar aðstæður þarf að tæma gas af tönkunum og þurfa viðkomandi bíleigendur að leita til sinna þjónustuaðila eða umboðsaðila. Sé um breytta bíla að ræða er hægt að snúa sér til Vélamiðstöðvarinnar en einnig hefur Baugsbót bifreiðaverkstæði tekið að sér að tæma gas af breyttum bílum hér á Akureyri.

Svo virðist sem langvarandi frost sé að valda þessum vandræðum sem hefur leitt til þess að gasrennsli í pípum frá borholunum er ekki fullnægjandi.

Norðurorka mun bera kostnað af því að tæma gallaða gasið af umræddum bílum og eru þau mál afgreidd í gegnum tryggingarfélag Norðurorku hf. VÍS.  Er þjónustuaðilum bent á að snúa sér þangað.

Olís hefur samband við þá viðskiptavini sem keyptu gas með lykli eða korti frá Olís. Greiðslukortafyrirtækin munu hafa samband við þá sem keyptu með greiðslukortum. Tímabilið sem um ræðir er frá því síðdegis á miðvikudag 24.2 fram til föstudagsins 26.2 þegar stöðinni var lokað. 

Viðskiptavinir eru beðnir velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið.