Norðurorka hefur frá árinu 2007 rekið hitaveitu í Fnjóskadal og Grýtubakkahreppi, Reykjaveitu. Á vinnslusvæðinu á Reykjum í Fnjóskadal eru tvær borholur sem hafa verið virkjaðar og þaðan liggur 54 km lögn til Grenivíkur. Nýlega var sett upp ný og stærri dæla á vinnslusvæðinu á Reykjum sem eykur dælugetu og þar með afhendingaröryggi veitunnar sem er með lengri hitaveitum landsins. Samhliða uppsetningu nýrrar dælu var nauðsynlegt að stækka rafmagnstöfluna, því stærri dælu fylgir aukin rafmagnsnotkun. Í heildina er um að ræða stóra og tímafreka aðgerð sem heppnaðist vel og þeir dagar sem liðnir eru frá gangsetningu gefa góð fyrirheit.
Fyrsta mynd: Nýja dælan. Önnur mynd: Vara borholan. Þriðja mynd: Nýja rafmagnstaflan.
Saga Reykjaveitu
Norðurorka hefur frá árinu 2007 rekið hitaveitu í Fnjóskadal og Grýtubakkahrepp, Reykjaveitu. Rannsóknir á jarðhita að Reykjum hófust á áttunda áratug síðustu aldar. Árið 1980 voru boraðar sex rannsóknarholur við Reyki og árið 1982 var sjöunda holan boruð. Ekkert varð þó úr virkjun jarðhitans að Reykjum í Fnjóskadal að svo stöddu og gert var hlé á rannsóknum allt til ársins 2005. Þá hófust rannsóknir að nýju og út frá niðurstöðum þeirra var ákveðið að leggja hitaveitu frá Reykjum til Grenivíkur.
Tímalína verkefna
Á fyrstu og annarri mynd má sjá dælustöð. Í litla húsinu á þriðju mynd er borholan RF-9 og í brekkunni fyrir ofan er eimskilja sem tekin var í notkun 2020.
Áskoranir fylgja því að reka langa hitaveitu. Mikill hæðamismunur er á lögninni sem fer frá því að vera í 230 m hæð á Reykjum og niður að sjávarmáli við Grenivík auk þess sem notendur á leiðinni eru í ólíkri hæð. Við aðstæður sem þessar verður þrýstifall sem gerir rekstur veitunnar erfiðan við mikla notkun. Dælustöðin á Hróarstöðum, sem byggð var árið 2021, hefur þó skilað góðum árangri og jafnað þrýsting í köldu veðri. Með nýrri dælu á Reykjum aukum við enn frekar afhendingaröryggi veitunnar en þó er ljóst að verkefnum Reykjaveitu er síður en svo lokið. Til að mæta aukinni orkuþörf stækkandi samfélags og tryggja afhendingu á heitu vatni um ókomna tíð þarf að byggja upp hitaveituna samhliða og erum við sannarlega að því.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15