Á fundi með fulltrúum Landsvirkjunar með kaupendum svonefndrar ótryggrar orku eða skerðanlegrar orku komu fram nýjar hugmyndir um sölufyrirkomulagið. Hugmyndirnar þýða í raun að hætt verður að selja raforku með þeim skilmálum að hún sé skerðanleg eða ótrygg eins og það hefur verið nefnt.
Hingað til hefur Landsvirkjun skilgreint ákveðinn hluta af framleiðslu sinni á raforku sem skerðanlega eða ótrygga og jafnframt sett fram ákveðna skilmála eða skilyrði fyrir kaupum á henni. Megin skilyrðin lúta að lágmarkskaupum auk þess að kaupendur undirgangast það skilyrði að heimilt er að skerða orku afhendingu með tiltölulega skömmum fyrirvara og kaupandinn skuldbindur sig til þess að eiga tiltækt varaafl til þess að mæta skerðingunni eða að hætta samsvarandi raforkunotkun á meðan á skerðingunni stendur. Á þessum grundvelli hefur verð á ótryggri eða skerðanlegri orku verið mun lægra en forgangsorku.
Í drögum að nýjum skilmálum sem Landsvirkjun kynnti fyrr í sumar var verulega hert á skilyrðum um lágmarkskaup auk þess sem Landsvirkjun áætlaði að verð orkunnar hækkaði til mikilla muna. Verulegrar óánægju gætti með þessi nýju drög af hálfu viðskiptavina Fallorku ehf. og kom fyrirtækið þeim sjónarmiðum á framfæri við Landsvirkjun.
Landsvirkjun hefur nú fallið frá fyrri hugmyndum um skilmála fyrir sölu á ótryggri orku en kynnti þess í stað hugmyndir um að ákveðinn hluti af framleiðslu fyrirtækisins verði boðinn til sölu með útboð til eins árs í senn. Með þessu virðist Landsvirkjun ætla að gera um það áætlun tólf mánuði fram í tímann hvaða umframgeta er í einstökum framleiðslueiningum vegna góðrar vatnsstöðu í lónum o.s.frv. Mætti þá orða þetta þannig að hefðbundin skerðingarákvæði falla niður en í stað þess mun það magn sem boðið verður til kaups undir þessum formerkjum verða breytilegt eftir tímabilum og því ekki forgangsorka í hefðbundnum skilningi þess orðs.
Nánari útfærsla á framkvæmd útboðs á þessu skilgreinda magni umframorku liggur ekki fyrir og þar með ekki hvort það verður boðið út í áföngum eða í einu lagi. Þá liggur ekki fyrir hvort núverandi kaupendur ótryggrar orku fá eitthverja aðlögun að nýju og breyttu kerfi.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15