Norðurorka hf. og Sjóvá Almennar tryggingar hf. buðu starfsmönnum pípulagningarfyrirtækja til samráðs- og kynningarfundar sl. föstudag.
Markmið fundarins var að fara yfir ýmiss sameiginleg atriði sem varða viðskiptavini miklu og lúta m.a. að öryggismálum og gæðum þeirrar þjónustu sem við veitum.
Fulltrúar Sjóvá fóru yfir ýmsar tölulegar staðreyndir varðandi vatnstjón sem orðið hafa í umdæmi félagsins og birtu myndir sem sýndu mismunandi tjónvalda. Algengt er að tengingar ýmiskonar tækja séu að gefa sig, s.s. blöndunartæki, ísskápar (með innbyggða klakavél), vatnsvélar, kaffivélar o.s.frv. Ástæðurnar eru ekki síst þær að eigendur tækjanna eru oftar en ekki að bjarga sér sjálfir og leita ekki til fagmanna.
Fulltrúar Norðurorku hf. fóru yfir tæknilega tengiskilmála fyrir vatnsveitur og hitaveitur og vöktu athygli á því hve mikilvægt er að þegar í upphafi hönnunar sé gert ráð fyrir inntaksrýmum sem uppfylla kröfur byggingareglugerðar. Einnig er mikilvægt að allir hlutaðeigandi aðilar sameinist um að koma skilaboðum til viðskiptavina um mikilvægi þess að inntaksrými uppfylli þessi skilyrði þar sem slíkt hefur mikla þýðingu fyrir öryggi notenda. Þá var pípulagningarmönnum kynnt gæðakerfi Norðurorku með tilliti til skráninga á frávikum og ábendingum frá viðskiptavinum. Einnig var óskað eftir því að þeir tækju þátt í að gera gagnagrunninn enn betri með því að senda inn tilkynningar um frávik og/eða ábendingar um það sem betur má fara. Með þessu móti á Norðurorka enn betra með að bregðast við og bæta úr.
Fulltrúi pípulagningameistara fór yfir fjölmörg atriði í þjónustu þeirra við viðskiptivini og þeim fjölmörgu áskorunum sem þeir standa frammi fyrir. Ný efni taka við af þeim eldri, plast er að verða æ algengara sem lagnaefni og ný tæki sem áður voru fyrst og fremst í fyrirtækjum eru nú orðin almenningseign. Fram komu áhyggjur af því að ekki liggi fyrir nægjanlegar upplýsingar og reynsla af þessum nýju lagnaefnum. Sama á við um mikið af þeim tækjum sem verið er að flytja inn. Óljóst er hvort þau uppfylli þær kröfur sem eðlilegt er að gera með tilliti til íslenskra aðstæðna ekki síst með tilliti til hitaveitna.
Í kjölfar erinda fóru fram samræður um efni þeirra og ýmis atriði sem lúta að þjónustu við viðskiptavini og markvissri upplýsingagjöf til þeirra.
Hér að neðan má sjá mynd af fyrirlesurum dagsins.
Stefán H Steindórsson sviðstjóri hjá Norðurorku, Elías Óskarsson pípulagningameistari og einn af eigendum Miðstöðvar, Jón Birgir Guðmundsson umdæmisstjóri Sjóvá, Jón Halldórsson tjónaskoðunarmaður Sjóvá og Gunnur Ýr Stefánsdóttir gæðastjóri Norðurorku.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15