Tími skemmtiferðaskipanna er kominn og þau halda sínu striki hvað sem líður vorhreti og kuldakasti. Fyrsta skemmtiferðaskipið Athena kom til Akureyrar 18. maí s.l. þótt ekki væri sumarlegt í lofti. Við vonum svo að heldur hafi glaðnað yfir þegar MSC Poesia sækir okkur heim á laugardaginn kemur.
Skemmtiferðaskipin taka að jafnaði 300 til 800 tonn af neysluvatni um borð í tanka sína þegar þau koma í höfn á Akureyri og ánægjulegt til þess að vita að vatn úr Glerárdalslindum, Hesjuvallalindum og Vaglalindum nýtist ferðalöngum allstaðar að úr heiminum á ferðalagi þeirra um heimsins höf.
Enn sem komið er eru skipin ekki að kaupa rafmagn þegar þau koma í höfn. Á því sviði hafa þó orðið miklar tækniframfarir sem munu gera tengingar skipa fýsilegri í framtíðinni. Nauðsynlegt er að fylgjast með þessum nýjungum og eftir atvikum huga að undirbúningi þeirra kosta sem kunna að vera í stöðunni.
Áætlun skemmtiferðaskipa sem koma til Akureyrar í sumar má sjá á heimasíðu Akureyrarhafnar.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15