Norðurorka yfirtók fráveitu Akureyrar þann 1. janúar 2014. Í samningi Norðurorku og Akureyrarbæjar var áætlað að bygging hreinsistöðvar fráveitu og lagning útrásar yrði lokið á árinu 2018. Á þeim tíma hafði Akureyrarbær lokið að skilja að regnvatnsrásir sem og að koma öllu fráveituvatninu, gegnum dælustöðvar í eina útrás (90 metra neyðarútrás) í Sandgerðisbót. Ennfremur var frátekin lóð undir hreinsimannvirkið við Sandgerðisbót. Þeim stóra áfanga var þegar náð að í Pollinn rann eingöngu regnvatn.
Norðurorka hóf strax undirbúning að hönnun og byggingu hreinsistöðvarinnar. Í undirbúningsferlinu kom í ljós við mælingar á fráveituvatninu að persónueiningafjöldi (PE) fráveitunnar var það mikill, eða 87 þúsund PE, að lög um mat á umhverfisáhrifum hvað á um að bygging hreinsistöðvarinnar þyrfti í Umhverfismat. Í þessu samhengi má geta þess að reiknað er með að hver íbúi láti frá sér eina persónueiningu á hverjum sólahring. Ennfremur þurfti að endurmeta áhrif fráveituvatnsins á viðtakann þ.e. lífríkið í Eyjafirði. Norðurorka samdi við verkfræðistofuna EFLU um að annast umhverfismatið og við Háskólann á Akureyri um rannsóknir á lífríki Eyjafjarðar. Eftir rannsóknir á lóðinni s.s. boranir o.fl. var lóðin undirbúin undir framkvæmdir árin 2016 og 2017, hún girt af, rekið niður þil, sprengt fyrir neðanjarðargeymum og reknir niður staurar fyrir byggingu.
Í stuttu máli lá fyrir samþykki Skipulagsstofnunar á umhverfismatinu í febrúar 2017.
Hluti verksins þ.e. sjálf húsbyggingin var boðin út í maí 2017 en ekkert tilboð barst. Þá var ætlunin að bjóða lagningu útrásar sérstaklega og síðan vélbúnað, pípur og sérverk innandyra sem sér verkþátt í lokin.
Í framhaldi var tekin sú ákvörðun að bíða með nýtt útboð meðan mesta þenslan gengi yfir. Í maí 2018 var verkið boðið út að nýju, með lengri skilatíma og með lagningu útrásar í sama verkþætti. Þrjú tilboð bárust í verkið sem lauk með að lægsta tilboði frá verktakafyrirtækinu SS byggi var tekið. Skilatími þessa framkvæmdaliðar á að ljúka í febrúar 2020 og er þá vænt að stöðin verði tekin í notkun á vormánuðum 2020.
Hreinsistöðinni er ætlað að sía öll föst og gróf efni frá fráveituvatninu og verður því ekið til förgunar að Stekkjavík við Blönduós. Fráveituvatninu verður veitt frá stöðinni út í viðtakann gegnum 400 metra pípu með 900 mm þvermáli. Útrennslispípan endar á 40 metra dýpi en líkanaútreikingar hafa sýnt að þar með ná útstraumar að bera fráveituvatnið út fjörðinn. Þá hafa rannsóknir á viðtakanum einnig sýnt að lífríkið ber mjög vel þau lífrænu efni sem fráveitan ber til sjávar.
Í allri hönnun hefur verið gert ráð fyrir að lóð hreinsistöðvarinnar geti rúmað frekari mannvirki til síðari tíma hreinsunar, komi upp krafa um slíkt, eða að ákvörðun Norðurorku. Hreinsistöðin með útrás er áætluð að kosta um 950 milljónir króna.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15