Á árinu 2022 áætlar Norðurorka að skipta öllum hemlum og eldri sölumælum hitaveitu á Ólafsfirði út fyrir snjallmæla. Samhliða því verður einnig uppsett söfnunarkerfi sem safnar upplýsingum úr mælunum.
Það er vel við hæfi að Ólafsfjörður sé fyrsti veituhlutinn okkar sem verður að fullu snjallmælavæddur þar sem hitaveitan á Ólafsfirði varð árið 1944 fyrsta bæjarhitaveitan utan Reykjavíkur til að tengja öll hús bæjarins við hitaveitu.
Talað er um að veitukerfi sé orðið snjallt þegar hægt er að nálgast notkun úr kerfinu í rauntíma inn í orkureikningakerfi. Þannig verður auðveldara fyrir viðskiptavini og veituna að fylgjast með notkun og virkni kerfisins. Með snjallmælavæðingunni mun því ekki verða þörf á að lesa af mælum með heimsóknum til viðskiptavina og áætlunarreikningar heyra sögunni til því í framhaldinu verður greitt fyrir raunnotkun hvers mánaðar og jafnframt verða orkureikningar í framtíðinni byggðir á sölu varmaorku.
Norðurorka mun á næstunni senda frekari upplýsingar til viðskiptavina sinna á svæðinu þar sem farið er nánar út í það hvernig þetta verkefni mun fara fram. En það er ljóst að með þessu er tekið stórt skref inn í snjalla framtíð, í nýjan heim af upplýsingum sem munu bæta nýtingu auðlinda og auðvelda upplýsingagjöf til viðskiptavina.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15