Á morgun laugardaginn 30. júlí kl. 14.00 býður Minjasafnið á Akureyri upp á gönguferð með leiðsögn um Fjöruna, gömlu Akureyri og allt norður að Torfunefi. Gangan hefst við Minjasafnið og endar að Sigurhæðum, húsi Matthíasar Jochumssonar skálds, þar sem boðið verður upp á hressingu. Leiðsögumaður er Gísli Sigurgeirsson umsjónarmaður Sigurhæða og Innbæingur með meiru.
Í samtali við Gísla kom fram að hann segir m.a. frá brunanum sem varð á Akureyri í desember árið 1901 og átti upptök sín í húsi sem áfast var við Hótel Akureyri. Af varð stórbruni svo 12 hús brunnu og rúmlega fimm tugir manna urðu húsnæðislausir. Svo var eldurinn mikill að bjarminn af bálinu sást af innstu bæjum í Eyjafirði og utan af Árskógsströnd.
Enn varð stórbruni á Akureyri árið 1906 en þá brunnu sjö hús efst við Strandgötuna.
Þessir hörmungar atburðir tengjast sögu Vatnsveitunar með því að þeir urðu til þess að Akureyringar voru reiðubúnir að leggja á sig þungar byrðar til að fá nýja og öflugri vatnsveitu en þær sem fyrir voru.
Vatnsveita Akureyrar var formlega stofnuð árið 1914 og tók hún yfir vatnsveitu Innbæinga sem stofnuð var 1902 og var í upphafi félag í eigu þeirra sem hana lögðu. Um svipað leyti hófu Oddeyringar vatnsveituframkvæmdir og var sú veita einnig einkaveita. Árið 1904 tók Akureyrarkaupstaður yfir Oddeyrarveituna og rann hún sömuleiðis inn í Vatnsveitu Akureyrar við stofnun hennar. Við hönnun veitunnar var mikil áhersla lögð á brunavarnir og voru um 40 brunahanar settir við vatnsleiðsluna út um allan bæ og mátti heita að ekki væru meira en 100 metrar á milli þeirra að jafnaði.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15