Í tilefni af 150 ára kaupstaðarafmæli Akureyrarbæjar samþykkti stjórn Norðurorku hf. að færa bænum að gjöf söguvörður, en formleg afhjúpun þeirra fer fram kl. 10.00 laugardaginn 1. september á mótum Hafnarstrætis og Aðalstrætis (norðaustan við ísbúðina Brynju) þar sem ein af vörðunum stendur.
Ef rýnt er í orðið söguvarða þá er það eins og flest íslensk orð gegnsætt og lýsandi ef vel er að gáð. Hefur skírskotun til þess að vörður hafa um aldir verið leiðarvísir á ferðum manna um landið, en með því að hnýta sögunni framan við er jafnframt minnt á að varðan geymir upplýsingar fyrir ferðamenn og aðra sem vilja fræðast um bæinn okkar.
Í þessum áfanga verksins verður komið fyrir sex söguvörðum í Innbænum, einu yfirlistsskilti á gatnamótum Aðalstrætis og Hafnarstrætis og síðan fimm öðrum skiltum í Innbænum. Yfirlitsskiltið sýnir mynd af Innbænum og vísar á önnur skilti, aðrar söguvörður á því svæði. Sagt er frá gömlu Akureyri og upphafi þess að þar fór að myndast byggð. Á korti af bænum má sjá landið eins og það er í dag en einnig er sýnt hvar gamla strandlengjan var í árdaga.
Hinar fimm söguvörðurnar eru minni og segja frá og sýna í myndum einstaka markverða staði í Innbænum; Fjöruna, Laxdalshús, Búðargil, Breiðgang (Broadway) og Spítalaveg. Sjón er sögu ríkari og þess má einnig geta að inn á hverju skilti eru svonefndir smartkóðar sem hægt er að nota til að sækja nánari upplýsingar inn á heimasíðu Akureyrarstofu, www.visitakureyri.is.
Auk ofangreindra sex söguvarða eru einnig í undirbúningi söguvörður sem koma á Oddeyrina og í Miðbæinn og eru þær jafnframt hluti af gjöf Norðurorku hf. til bæjarins í tilefni 150 ára afmælisins.
Eins og áður segir mun formleg afhending á þessari afmælisgjöf Norðurorku hf. til Akureyrarkaupstaðar fara fram kl. 10:00 laugardaginn 1. september n.k. og er það von okkar að gjöfin verði fræðandi og upplýsandi jafnt fyrir ferðafólk sem bæinn sækir heim, en ekki síður fyrir bæjarbúa sjálfa.
Hér má sjá mynd af þeim stað þar sem fyrsta söguvarðan verður afhjúpuð á mótum Aðalstrætis og Hafnarstrætis.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15