5. júl 2012

Spálíkan fyrir metanvinnslu endurskoðað

Frá borun rannsóknarhola á Glerárdal
Frá borun rannsóknarhola á Glerárdal

Eftir  rýni á spálíkani um vinnanlegt magn hauggass á Glerárdal er ljóst að áður gefnar forsendur fyrir  vinnslunni hafa breyst verulega.

Árið 2009 vann Mannvit verkfræðistofa skýrslu fyrir Flokkun Eyjafjörð ehf. og Orkusetur þar sem lagt var mat á mögulegt magn vinnanlegs hauggass úr gömlu sorphaugunum á Glerárdal.  Sett var upp svonefnt spálíkan þar sem m.a. var byggt á magntölum um losun sorps í haugana.  Var á þessum tölum byggt þegar Akureyrarbær skrifaði undir viljayfirlýsingu um mögulega nýtingu gassins í þágu koltrefjaverksmiðju sem uppi voru hugmyndir um að byggja hér á Akureyri.

Þegar kom að því að vinna málið áfram komu upp hugmyndir um að Norðurorka tæki að sér umsjón með rannsóknum og mögulegri nýtingu gassins og var gengið frá samningi þar að lútandi milli Akureyrarbæjar og Norðurorku í mars 2011.  Í framhaldi af þessu var síðan gerður samningur við Mannvit um frekari ráðgjöf við verkefnið og síðan gengið frá samningi við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða um borun á rannsóknarholum í haugana.

Boraðar voru tilraunaholur árið 2011 og við mælingar á gasi úr þeim virtist sem vinnanlegt magn hauggass væri í samræmi við áðurnefnt spálíkan. Talið var að vinna mætti um 1,5 milljónir Nm³ af metani árlega til ársins 2037. Í verkefninu var áætlað að endurtaka mælingar sumarið 2012 og fá fram frekari staðfestingu á hugmyndum um raunmagn gassins og hraða niðurbrots í haugunum.

Eftir að Norðurorka kynnti áætlanir sínar um uppbyggingu metanvinnslustöðvar núna í vor rýndu  sérfræðingar Umhverfisstofnunar áðurnefnt spálíkan og höfðu uppi efasemdir um forsendur þess.  Í ljósi  þessarar rýni yfirfóru sérfræðingar Mannvits spálíkanið og forsendurnar. Niðurstaðan er sú að vinnanlegt magn hauggass er nú  talið minna en áður var áætlað. Eins og fyrr segir verða mælingar á haugunum  endurteknar núna í  sumar og í framhaldi af þeim verður lagt nýtt mat á forsendur og grundvöll spálíkansins.  Kemur þá í ljós hvort nægilega styrkar stoðir eru  undir  áætlunum um vinnanlegt magn hauggass og þar með verkefninu  í heild sinni.  Ber að nota þetta tækifæri til þess að þakka þá mjög svo gagnlegu rýni sem verkefnið hefur fengið.

Eins og mál standa núna er vinnanlegt magn samkvæmt endurskoðuðu spálíkani nægjanlegt til þeirrar vinnslu sem Norðurorka áætlaði, þ.e. fyrir 6-700 fólksbílaígildi, en stækkunarmöguleikar vart fyrir hendi og því áhættan og óvissan fyrir Norðurorku meiri en áður var talið.

Leiðarljós stjórnar Norðurorku hf., hafa verið þau að verið sé að nýta „innlenda auðlind“ við bæjardyrnar og um leið að draga úr gróðurhúsaáhrifum hauggassins sem sannanlega eru veruleg.  Hefur þá verið gengið út frá því að saman fari hagsmunir neytenda á Akureyri með mögulegri lækkun á eldsneytiskostnaði.  En um leið er mikilvægt að verkefnið sé arðbært og standi undir sér til lengri tíma litið.  Mat á þessari áhættu þarf sannanlega að leiða til þeirrar niðurstöðu að óvissa sé sem minnst og hún sé ásættanleg.  Að þessu mati verður unnið á næstu vikum og óskandi að niðurstaðan verði áfram jákvæð þrátt fyrir breyttar forsendur.