Þessa daganna er unnið að endurnýjun á stýribúnaði dælustöðvarinnar að Vöglum í Hörgárdal þaðan sem Norðurorka sækir töluverðan hluta af því kaldavatni sem viðskiptavinir Norðurorku í Hörgársveit og Akureyri njóta. Því er allri dælingu frá Vöglum handstýrt á meðan á viðhaldinu stendur. Gert er ráð fyrir að verkinu ljúki í næstu viku.
Á sjötta áratugnum var það vatn sem Vatnsveita Akureyrar fékk úr Sellandslindum á Glerárdal og úr Hesjuvallalindum í Hlíðar-fjalli tæplega orðið nægilegt fyrir bæinn þegar þörfin var mest. En þar höfðu einnig áhrif tíðarfarið, ýmist þurkar og/eða frostatíð. Því var farið að leita vatns víða í kringum Akureyri. Einn af þeim stöðum sem vatns var leitað var á eyrunum á mótum Hörgár og Krossastaðaár og sýndi sig fljótlega að þar væri mikið af góðu vatni. Á myndinni sem fylgir þessari frétt sést hvar verið er að bora eftir vatni í tilraunaskyni árið 1970 (Myndir er úr dagblaðinu Degi). Virkjun vatnstökusvæðisins fór síðan í gang í byrjun árs 1973 eftir að undirbúningur og framkvæmdir höfðu staðið yfir í rúmlega tvö ár.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15