Norðurorku hafa borist tjónatilkynningar vegna truflana sem urðu í flutningskerfi Landsnets 2. október síðastliðinn. Verið er að yfirfara tjónatilkynningarnar en markmið Norðurorku er að vinna þessi mál eins hratt og mögulegt er í samvinnu við Landsnet til að hægt sé að veita viðskiptavinum, sem tilkynnt hafa tjón, svör sem fyrst.
Norðurorka hefur móttekið tæplega 50 tjónatilkynningar í tengslum við atburðinn. Við hvetjum viðskiptavini okkar til að taka sér tíma og jafnvel fá aðstoð við að meta tjónið. Betra er að senda inn eina tilkynningu um tjón í stað margra.
Hvernig er unnið úr tjónatilkynningum?
Yfirferð og úrvinnsla tjónatilkynninga er í algjörum forgangi svo viðskiptavinir fái svör og lausn sinna mála sem allra fyrst. Starfsfólk Landsnets yfirfer allar tilkynningar sem berast. Byrjað er á að skoða staðsetningu tjónastaðar ásamt gögnum úr kerfum Landsnets í því skyni að staðfesta að viðkomandi staðsetning hafi orðið fyrir spennutruflunum sem eru utan þeirra eðlilegu marka sem rafmagnstæki þola. Þau mál sem fá samþykki eru í framhaldinu send til tryggingarfélags sem vinnur málið áfram og klárar bótarkröfuna.
Sem dreifiveita er það hlutverk Norðurorku að hafa milligöngu um öll tjónamál sem tengjast rafmagnsgæðum fyrir hönd sinna viðskiptavina. Í þessu tilfelli er um náið samstarf Norðurorku og Landsnets að ræða sem gengur út á að yfirfara og afgreiða tjónatilkynningar okkar viðskiptavina eins hratt og auðið er.
Hvenær má ég eiga von á að fá tjónið bætt?
Eins og áður hefur komið fram hafa margar tjónatilkynningar borist og eru enn að berast. Við höfum það markmið að vinna hratt og vel úr þessum málum en getum því miður ekki gefið upp nákvæma tímasetningu á þessu stigi.
Þarf að geyma skemmt raftæki?
Norðurorka getur ekki útilokað að tryggingafélagið, sem metur upphæð tjónsins, muni óska eftir því að fá til sín rafmagnstæki sem hafa orðið fyrir tjóni. Við mælum með að viðskiptavinir taki einnig myndir af skemmdum tækjum og búnaði auk þess að halda vel utan um allan kostnað í tengslum við málið.
Við biðjum viðskiptavini okkar sem orðið hafa fyrir tjóni af völdum truflunarinnar að sýna biðlund á meðan unnið er úr tilkynningum og beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15