22. des 2015

Uppgjör Landsvirkjunar við Norðurorku

Vorið 1999 var hlutafélagið Þeistareykir stofnað en stofnendur þess voru Orkuveita Húsavíkur (40%), Hita- og vatnsveita Akureyrar og Rafveita Akureyrar (40%) (síðar Norðurorka), Aðaldælahreppur (10%) og Reykdælahreppur (10%). Megintilgangur með félaginu voru orkurannsóknir á Þeistareykjum með það að markmiði að orka þaðan gæti stuðlað að uppbyggingu iðnaðar á Norð-Austurlandi.
 
Haustið 2005 keypti Landsvirkjun 32% hlut í félaginu og átti þá jafnan hlut og Orkuveita Húsavíkur og Norðurorka hf. og Aðaldælahreppur og Reykdælahreppur skiptu með sér 4% hlut.
 

Í lok árs 2009 keypti Landsvirkjun hlut Norðurorku og síðar einnig hlut Orkuveitu Húsavíkur og annarra í félaginu. Hluti kaupverðs var háður því að Þeistareykjasvæðið yrði virkjað og nýtt fyrir ákveðin tímamörk. Nú er orðið ljóst að svæðið verður nýtt fyrir þau tímamörk samnings og því kemur til greiðslu lánasamnings sem bundinn var þeirri áhættu. Norðurorka hefur ekki fært ofangreindan lánasamning til tekna sökum óvissu um nýtingu svæðisins og getið þess í skýringum ársskýrslu. Nú hefur Landsvirkjun í ljósi framvindu verkefnisins á Þeistareykjum ákveðið að greiða upp lánasamninginn í samræmi við ákvæði hans. Greiðslan til Norðurorku nemur um 950 milljónum króna og mun hagnaður Norðurorku á árinu 2015 hækka umfram áætlanir sem þessu nemur. Jafnframt mun Landsvirkjun greiða upp skuldabréf sem var hluti kaupverðs samhliða þessu uppgjöri.

Ljóst er að greiðslan hefur mjög jákvæð áhrif á rekstur og efnahag Norðurorku. Framundan eru í samstæðunni stórar fjárfestingar svo sem bygging Glerárvirkjunar og bygging hreinsistöðvar fyrir fráveitu. Að auki kemur til greiðslu kaupverðs á fráveitukerfi Akureyrar seinni part árs 2018. Ljóst er að fjármögnun Norðurorku verður því léttari næstu ár og líkur á að fyrirtækið geti fjármagnað framkvæmdaverkefni næstu missera án lántöku.