Fimmtudaginn 25. janúar, fór fram afhending á styrkjum Norðurorku til samfélagsverkefna vegna ársins 2024. Athöfnin fór fram í Menningarhúsinu Hofi, sem er vel við hæfi þar sem Norðurorka er bakhjarl Menningarfélagsins.
Í október 2023 auglýsti Norðurorka eftir umsóknum um styrki til samfélagsverkefna fyrir árið 2024 og rann umsóknarfrestur út í nóvember. Fram kom að veittir væru styrkir til menningar- og lista, íþrótta- og æskulýðsstarfs og góðgerðarmála. Markmið með styrkjunum er að styðja við sjálfsprottið starf, starfsemi frjálsra félagasamtaka og framtak einstaklinga sem stuðlar að farsælli þróun samfélagsins, lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi.
Mikil gróska í samfélaginu
Alls bárust 100 umsóknir og eftirtektarvert var hve fjölbreytni verkefnana er mikil sem lýsir vel þeirri grósku sem býr í samfélaginu okkar. Fjögurra manna vinnuhópur (skipaður starfsfólki NO) fór yfir umsóknirnar og varð niðurstaða hópsins að veita styrki til 38 verkefna. Verkefnið var erfitt enda fjölmörg góð verkefni sem sótt var um styrk til og ákveðin upphæð sem var til ráðstöfunar.
Styrkþegar fylgjast með úthlutunarathöfn í Hofi, fimmtudaginn 25. janúar sl. Gunnur Ýr Stefánsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu forstjóra, býður gesti velkomna og kynnir þau verkefni er hljóta styrk að þessu sinni. (Myndir: Axel Þórhallsson)
Sjá fleiri myndir frá úthlutunarathöfn HÉR.
Fjölbreytt verkefni sem byggja á brennandi áhuga og metnaði
Í ár tengjast flest verkefnanna íþróttum og útivist annarsvegar og fræðslu og stuðningi hinsvegar, menning og listir eru þó einnig áberandi. Sem dæmi um fjölbreytileika verkefna sem hlutu styrk þá voru veittir styrkir til afreksíþróttafólks, heimildaskráningar, fræðslumorgna, þróunar á notkun D&D sem kennslutækis og fræðandi fyrirlestra á öldrunarheimilum á Akureyri. Stærsta styrkinn í ár hlutu Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri, til kaupa á speglunarskurðtæki fyrir skurðdeild sjúkrahússins.
Mörg þessara verkefna eiga það sameiginlegt að á bak við þau liggur mikil sjálfboðavinna fólks sem leggur sig fram við að veita sínu hjartans máli eða áhugamáli brautargengi og því er það sérstaklega ánægjulegt að geta átt þátt í að verðlauna slíkt starf.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15