Þá er veður farið að ganga niður, rauð viðvörun fallin úr gildi og appelsínugul tekin við. Líkt og víða annarsstaðar hefur mikill viðbúnaður verið vegna veðurs sem gengið hefur yfir svæðið síðastliðinn sólarhring og hefur meginhlutverk Norðurorku síðastliðinn sólarhring, líkt og aðra daga ársins, fyrst og fremst verið að sjá til þess að grunninnviðir samfélagsins starfi eðlilega, þ.e. fráveita, vatnsveita, hitaveita og rafveita.
Hellirigning, miklar leysingar og frosin jörð hafa valdið óvenju miklu álagi á fráveitukerfi bæjarins og því hefur mikil áhersla verið lögð á að fráveitan nái að sinna sínu hlutverki eins vel og mögulegt er. Áður hefur komið fram að í morgun gróf vatnsflaumur undan aðveituæð hitaveitu frá Laugalandi, skemmdi háspennustreng sem þar er og sleit ljósleiðara. Við það rofnaði samband við stóran hluta stjórnkerfis sem gerði það að verkum að fara þurfti á staðina til að sannreyna virkni kerfanna. Vegna rafmagnstruflana fóru út dælur í Réttarhvammi og Hlíðarenda sem ollu heitavatnsleysi frá Rangárvöllum upp í Hálönd í stutta stund. Í Hafnarstræti sköpuðust sambærilegar aðstæður og í gærkvöldi þar sem regnvatn flæddi upp um brunna og safnaðist saman í lágpunktum svæðisins.
Viðbragðsaðilar hafa síðstliðinn sólarhring unnið þétt og vel saman í að bregðast við aðstæðum sem upp komu. Unnið var að því að lágmarka tjón og tryggja að veiturnar á svæðinu héldust inni og í rekstri. Norðurorka þakkar starfsfólki sínu og viðbragðsaðilum sem að komu fyrir fagleg og yfirveguð vinnubrögð við krefjandi aðstæður. Einnig er rétt að þakka íbúum sem stóðu í ströngu fyrir góð samskipti.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15