30. des 2013

Verðskrá hitaveitu og rafveitu óbreytt milli ára

Fjárhagsáætlun ársins 2014 gerði ráð fyrir að verðskrá hækkaði til þess að mæta hluta vísitöluhækkunar frá desember 2012 til desember 2013.  Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að Norðurorka hefur ekki hækkað verðskrá sína vegna væntrar verðbólgu heldur byggt á því að taka inn hækkun vísitölu næstu 12 mánuðina á undan.  Með þessu hefur Norðurorka lagt sitt af mörkum til að stemma stigu við víxlhækkunum verðlags.

Í ljósi hugmynda um nýja þjóðarsátt um að stemma stigu við víxlverkunum verkhækkanna og þar með aukinni verðbólgu ákvað stjórn Norðurorku að taka til endurskoðunar áður fyrirhugaðar breytingar á verðskrá Norðurorku með það að leiðarljósi að leggja sitt af mörkum til að auka stöðugleika í samfélaginu.

Niðurstaðan er sú að falla að verulegu leyti frá fyrirhuguðum breytingum á verðskrá félagsins.

Hitaveita: Engin gjaldskrárbreyting um áramót – fastagjald og rúmmetragjald óbreytt.

Rafveita: Engin gjaldskrárbreyting um áramót – fastagjald og kílóvattastundagjald óbreytt.

Vatnsveita: Vatnsgjald hækkar um 4%. Með hliðsjón af afkomu vatnsveitunnar og mikilla fjárfestinga á árinu 2014 var ákveðið að halda við fyrirhugaða breytingu á vatnsgjaldi. Fyrirhugað er að byggja nýjan vatnsgeymi ofan við bæinn auk endurnýjunar lagna ofan úr Hesjuvallalindum í Hlíðarfjalli.

Tengigjöld allra veitna hækka um 4% en í því samhengi þarf að hafa í huga, að stór hluti tengisgjalda byggja á aðfluttum aðföngum sem hækkað hafa verulega í innkaupum.

Loks er rétt að árétta að verðskrár Norðurorku bæði hitaveitu og rafveitu hafa lækkað mikið að raungildi og hitaveitunar reyndar einnig að krónutölu frá því að hún fór hæst.

Norðurorka áskilur sér eðlilega rétt til að endurskoða umrædda ákvörðun ef forsendur breytast.