Þann 1. ágúst verður gerð breyting á verðskrám Norðurorku en þá munu verðskrár allra veitna hækka um 4,9%. Miklar framkvæmdir eru yfirstandandi og framundan í öllum veitum fyrirtækisins og ljóst er að verðskráin mun áfram litast af þeim. Stjórn Norðurorku samþykkti á fundi fyrr í sumar að hækka verðskrár allra veitna um 4,9% frá 1. ágúst nk.
Hitaveita
Mikil aukning er í heitavatnsnotkun í samfélaginu, langt umfram fólksfjölgun. Aukningunni fylgir stór áskorun hvað varðar rannsóknir, leit og fjárfestingar. Ekki er fyrirfram ljóst að nýjar sjálfbærar jarðhitaauðlindir séu til reiðu í Eyjafirði og kostnaðurinn við að virkja þær hefur aukist enda sífellt lengra að sækja þær.
Undanfarin ár hefur Norðurorka verið í stórum verkefnum til að auka orkumátt hitaveitunnar og flutningsgetu aðveitulagnarinnar frá Hjalteyri. Heildarkostnaður verkefnisins var áætlaður um 2,6 milljarðar króna og var talið að með framkvæmdinni væri verið að svara þörfum samfélagsins fyrir heitt vatn næstu 15-20 árin. Nú hefur hinsvegar komið í ljós að hefja þarf virkjun næsta svæðis, þ.e. jarðhitasvæðisins við Ytri-Haga á Árskógssandi, mun fyrr en áður hafði verið áætlað. Reikna má með að sú fjárfesting (aðveitulögn, boranir, fasteignir og búnaður) verði um 1,5 milljarður á næstu tveimur árum.
Frá 1. ágúst nk. verður rúmmetraverð hitaveitu á Akureyri og nágrennis kr. 160,90. Við bætist umhverfis- og auðlindagjald 2% og virðisaukaskattur 11%.
Rafveita
Á undanförnum árum hefur mikil endurnýjun átt sér stað í dreifikerfi rafmagns. Meðal annars hefur verið unnið markvisst að spennubreytingum í þeim tilgangi að styrkja dreifikerfið enn frekar til að taka við aukinni notkun s.s. hleðslu rafbíla.
Rétt er að taka fram að verð fyrir raforkudreifingu er um helmingur rafmagnskostnaðar heimila en innifalið í því er flutningsgjald til Landsnets og opinber gjöld, þ.e. jöfnunargjald og virðisaukaskattur.
Frá 1. ágúst nk. verður almennt verð dreifingar kr. 4,89 kr. á kWst., flutningsgjald Landsnets kr. 2,00 á kWst. og jöfnunargjald í ríkissjóð er kr. 0,41 á kWst.. Samtals kr. 7,30 á kWst. Við bætist virðisaukaskattur 24% á almenna raforkudreifingu.
Vatnsveita
Líkt og í öðrum veitum eru stór verkefni framundan og má þar t.d. nefna aðveitulögn frá Vaðlaheiðargöngum til Akureyrar og lagning dreifikerfis í ný hverfi sem eru að byggjast upp á starfssvæðinu.
Frá 1. ágúst nk. verður vatnsgjald kr. 168,3 á hvern m2 húsnæðis auk fastagjalds sem er kr. 11.223 á matseiningu íbúðarhúsnæðis og kr. 22.447 á matseiningu atvinnuhúsnæðis. Vatnsgjöld eru innheimt samhliða fasteignagjöldum. Ekki er greiddur virðisaukaskattur af vatnsgjöldum.
Fráveita
Ný hreinsistöð fráveitu hefur sannað gildi sitt á þeim tveimur árum sem hún hefur starfað en á árinu 2022 voru síuð 37 tonn af rusli úr fráveituvatninu sem áður hefðu endað út í sjó. Auk þess að sía rusl úr fráveituvatninu hefur gerlamengun við strandlengju Akureyrar minnkað. Hreinsistöðin er því mikil umhverfisbót fyrir samfélagið allt við Eyjafjörð.
Frá 1. ágúst nk. verður fastagjald á hverja matseiningu kr. 12.770 og kr. 301,74 á hvern m2. Fráveitugjöld eru innheimt samhliða fasteignagjöldum. Ekki er greiddur virðisaukaskattur af fráveitugjöldum.
Athugið að verð eru birt með fyrirvara um innsláttarvillur
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15