Að ýmsu þarf að hyggja í rafmagnsleysi líkt og því sem upp kom síðastliðinn mánudag einkum þegar óvissa er um framgang mála og hversu langur tími líður þar til ætla má að rafmagn komist á að nýju.
Hafa þarf í huga að algjört rafmagnsleysi eins og þarna kom upp hefur áhrif á alla viðskiptavini rafveitu Norðurorku og þar með einnig okkar eigin búnað. Þannig er rekstur bæði vatnsveitu og hitaveitu algjörlega háður rafmagni þar sem mikið af stórum og litlum dælum sjá um að koma vatninu um aðveituæðar, stofnlagnir og dreifikerfi bæjarins. Hitaveitan er eðli málsins samkvæmt viðkvæmari fyrir þessu en vatnsveitan síður þar sem stór hluti af því vatni sem hún nýtir er sjálfrennandi ofan úr Hlíðarfjalli og af Glerárdal. Af því marki sem vatnið er að koma frá Vöglum í Hörgárdal þarf aftur á móti að dæla því þaðan, en það er einkum yfir háveturinn sem verulegur hluti vatnsins kemur frá Vöglum.
Þáttur í því að tryggja rekstraröryggi hitaveitunnar er að Norðurorka búi yfir nægjanlega miklu varaafli til þess að knýja megin dælubúnað veitunnar. Í dælustöðinni að Syðra Laugalandi í Eyjafjarðarsveit er öflug dísilstöð sem sér vinnslusvæðinu þar og dælum sem dæla vatninu um aðveituæðina um Eyjafjarðarsveit og inn á Akureyri fyrir nægu afli. Í neyð væri einnig hægt að tengja vinnslusvæðið að Botni þessu varaafli. Þá er einnig dísilstöð við dælustöðina í Þórunnarstræti og enn önnur dísilstöð á vagni sem staðsett er á Rangárvöllum sem m.a. er hægt að flytja að vinnslusvæðinu á Hjalteyri og tengja þar við. Þannig er hægt að tryggja dælingu þaðan um Hörgársveit og inn á Akureyri. Loks er að geta þess að dísilstöð er á vinnslusvæði Norðurorku hf. að Reykjum í Fnjóskadal sem þjónar dalnum og íbúum á Grenivík. Með þessu móti er tryggt að hægt sé að halda uppi þjónustu við langflesta viðskiptavini hitaveitu Norðurorku þó svo að til algjörs rafmagnsleysis komi til skemmri eða lengri tíma.
Hinsvegar þarf að hafa í huga að í dreifbýlinu eru víða svonefndar smádælustöðvar sem fá rafmagn frá dreifikerfi RARIK og við þessar dælustöðvar er ekki varaafl sem þýðir að til vatnsleysis getur komið hjá þó nokkuð mörgum viðskiptavinum í langvarandi rafmagnsleysi.
Við aðstæður eins og þær sem komu upp síðastliðinn mánudag var dísilstöðin að Laugalandi ræst sem og stöðin sem staðsett er við Þórunnarstræti og hugað að mögulegum flutningi dísilstöðvar að Hjalteyri. Eftir að fyrir lág að Landsneti tókst að koma á rafmagni milli Blönduvirkjunar og Rangárvalla við Akureyri og það samband var orðið stöðugt var tekin ákvörðun um að lána RARIK færanlegu dísilstöðina á Rangárvöllum. Var hún dregin á vagni sínum austur í Kelduhverfi og tengd þar inn á kerfið til þess að tryggja íbúum lágmarks rafmagn á því svæði.
Tæknilegar upplýsingar um varaafl:
Loks er einnig rétt að nefna að á Rangárvöllum er 7 MW varaaflsstöð Landsnets og í rafmagnsleysinu sl. mánudag var byrjað að keyra þá stöð. Í framhaldinu gátu starfsmenn Norðurorku hafið skömmtun rafmagns á Akureyri, en sem betur fer þá varði rafmagnsleysið stutt þar sem fljótlega komst á tenging milli Blönduvirkjunar og Rangárvalla.
Syðra Laugaland og nágrenni
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15