Stjórn Vaðlaheiðarganga hf. hefur ákveðið að láta reyna á að loka fyrir heitu vatnsæðina sem komið var inn á um miðjan febrúar s.l. Er þetta í samræmi við tillögur ráðgjafa félagsins.
Í umfjöllun um málið hafa eðli málsins samkvæmt vaknað spurningar um hvort möguleikar séu á því að nýta vatnið með einhverjum hætti og þá meðal annars verið horft til Norðurorku hf.
Vandinn í þessu sambandi er sá að vatnið er ekki nógu heitt til þess að hægt sé að nýta það inn á hitaveitukerfi Norðurorku. Hér þarf að hafa í huga að hitakerfi bygginga á þjónustusvæðinu eru hönnuð fyrir allt annan kerfishita en hér er um að ræða. Nefndar hafa verið hugmyndir eins og þær að nota vatnið til uppblöndunar, en eins og staðan er í dag er ekki þörf fyrir vatn til uppblöndunar. Með sama hætti er ekki þörf fyrir vatnið þó hægt væri að nýta það með notkun varmaskipta. Eitthvað nýtt þyrfti að koma til.
Þá þarf að hafa í huga að ekki er auðvelt að nýta vatnið nema með miklum tilkostnaði inn í göngunum. Tryggja þarf að ekki komist súrefni í vatnið við upptök þess og eins þarf að tryggja öryggi lagna og búnaðar inn í göngunum með tilliti til öryggis vegfarenda. Í þessu sambandi hafa ráðgjafar Norðurorku hjá ÍSOR (Íslenskum orkurannsóknum) bent á að væntanlega sé einfaldara að ná vatninu með borunum ofan frá og þá mögulega hægt að sækja vatnið á meira dýpi og þá eftir atvikum heitara vatni.
Í þessu sambandi þarf einnig að hafa í huga að gera þarf heilmiklar rannsóknir á svæðinu áður en til hugsanlegrar vinnslu kemur. Því var það von Norðurorku að vatnið fengi að renna út úr göngunum í lengri tíma þannig að meta mætti afkastagetu svæðisins. Til hins er að horfa að lokun fyrir sprnugurnar þýðir að ekki er verið að sóa heitu vatni úr kerfinu ef svo má segja og mögulega hægt að nálgast vatnið eftir öðrum leiðum síðar eins og að framan er getið. Loks má nefna að mögulega eiga göngin eftir að skera frekari vatnsuppsprettur þar sem þau liggja gegnum heiðina. Því er mikilvægt að skoða þetta mál allt í víðara samhengi.
Sú staðreynd að við búum í raun yfir mjög takmörkuðum upplýsingum um svæðið og að þetta mikla vatn er að koma okkur mjög á óvart, minnir okkur á hversu brotakennd þekking okkar er og þar með hversu mikið við eigum eftir ólært um þetta merkilega land okkar.
Norðurorka hf. hefur nú fært Vaðlaheiðarsvæðið inn í rannsóknaráætlun sína og munu sérfærðingar ÍSOR sem sjá um jarðhita rannsóknir fyrir félagið því rannsaka þetta svæði náið á næstu misserum og árum. Margt bendir til þess að hér sé um öflugt svæði að ræða í vatnsmagni en óvíst er hversu hitinn er mikill. Vonandi færa þessar rannsóknir okkur nær því hvort hér er um vænlegt svæði að ræða til lengri framtíðar.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15