Í kjölfar þess að lagt var fram frumvarp um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar hefur orðið nokkur umræða um mismunandi kyndingarkostnað á hinum ýmsu stöðum á landinu.
Frumvarpið gerir ráð fyrir því að niðurgreiðslur til húshitunar verði auknar verulega til þess hluta landsmanna þar sem verðið er hæst, en þar er átt við að um 10% landsmanna búa við mun hærri kyndingarkostnað en hin 90% landsmanna.
Til þess að fjármagna þessar auknu niðurgreiðslur gerir frumvarpið ráð fyrir því að skattur verði lagður á raforku og heitt vatn þannig að hann nemi 0,10 kr. á hverja kílóvattstund af seldri raforku og verði 1% skattur á smásöluverð heita vatnsins.
Norðurorka hf. gerir ráð fyrir að fá umrætt frumvarp til umsagnar líkt og önnur mál sem varða fyrirtækið og viðskiptavini þess og mun í framhaldinu rýna málið og setja fram á því formlega skoðun.
Hitt er rétt að taka fram og árétta að góður árangur hefur náðst hjá Norðurorku hf. í því að lækka verð heita vatnsins og liðinn er sá tími að hitaveitan á Akureyri sé með þeim dýrari á landinu.
Ef skoðaður er verðsamanburður milli nokkurra veitna á landinu kemur í ljós að margar af þeim standa vel í samanburði við Orkuveitu Reykjavíkur sem lengi hefur verið með þeim ódýrari á landinu.
Hér er sett fram dæmi um hús sem notar 750 m3/rúmmetra af heitu vatni á ári.
Rúmm. verð | Fast gjald | m3 á ári |
Fastagjald | Samtals | |
Kr/m3 | kr/dag | 750 | kr/ári | á ári | |
Orkuveita Reykjavíkur | 113,72 | 37,50 | 85.290 | 13.688 | 98.977,50 |
HS-veitur | 105,40 | 19,25 | 79.050 | 7.026 | 86.076,25 |
Norðurorka | 98,00 | 51,94 | 73.500 | 18.958 | 92.458,10 |
HEF Egilsstöðum |
97,50 | 36,36 | 73.125 | 13.271 | 86.396,40 |
Selfossveitur | 89,30 | 32,14 | 66.975 | 11.731 | 78.706,10 |
Eins og sjá má er húshitunarkostnaður á mánuði miðað við þessar forsendur um 6.600 til 8.200 krónur á mánuði eftir veitum, um 7.700 krónur á Akureyri. Hér þarf þó að hafa í huga að vatnshiti er eilítið misjafn milli veitna eða frá 74°C út á kerfið hér á Akureyri upp í 83°C út á kerfið í Reykjvík sem þýðir að verðmunur er í raun enn minni milli veitnanna en ofangreindar tölur gefa til kynna. Það jákvæða í þessu öllu er hins vegar að húshitunarkostnaður á Íslandi er mjög lágur hjá langflestum landsmönnum sé tekið mið af sambærilegum kostnaði hjá öðrum Norðurlöndum og þótt víðar væri leitað.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15