3. jún 2016

Rafmagnslaust um skamma hríð á hluta Akureyrar

Um klukkan eitt í dag varð rafmagnslaust á hluta Akureyrar þ.e. þeim hluta bæjarins sem tengdur er aðveitustöð nr. 1 við Þingvallastræti.

Þarna var um mistök að ræða þar sem stjórnstöð Landsnets í Reykjavík tók aðveitustöðina út.  Verið er að undirbúa framkvæmdir við aðveitustöðina og eiga þær að fara fram næstu nótt, sbr. frétt hér á síðunni.  Þegar líður á daginn verður byrjað að létta álagi af aðveitustöðinni við Þingvallastræti og flytja það yfir á aðveitustöðina við Kollugerði eða Urðargil.  Síðan er ætluninn að taka aðveitustöðina við Þingvallastræti alveg út í kvöld.

Einver misskilningur varð hjá Landsneti með aðgerðaráætlun Norðurorku og því var stöðin tekin út kl. 13:00 í stað þess að það yrði gert í samræmi við aðgerðaráætlunina og í samráði við Norðurorku í gegnum tetrakerfið.

Viðskiptavinir eru beðnir velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið.

----

Uppfært kl. 16:00

Komið er í ljós að fresta verður framkvæmdum við aðveitustöðina sem fara áttu fram í nótt. Þegar verið var að flytja álaga af aðveitustöðinni við Þingvallastræti yfir á aðveitustöðina við Kollugerði kom í ljós bilun á streng og því nauðsynlegt að fresta viðhaldsverkinu.

Til að fyrirbyggja misskilning þá átti viðhaldið á aðveitustöðinni við Þingvallastræti aldrei að leiða til rafmagnsleysis þar sem ætlunin var að fæða allan bæinn í gegnum aðveitustöðina við Kollugerði.