Ársfundur Norðurorku hf. 2013 var haldinn í Menningarhúsinu Hofi föstudaginn 22. mars s.l. Geir Kristinn Aðalsteinsson stjórnarformaður Norðurorku setti fundinn og bauð gesti velkomna. Hann fagnaði því tækifæri sem ársfundurinn skapaði félaginu til þess að bjóða til sín fulltrúum eigenda og samstarfsaðila. Að því búnu tók Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri Þingeyjarsveitar við fundarstjórn og kynnti dagskrá fundarins.
Fyrsta erindið á dagskránni var "Norðurorka - staða og framtíðarsýn" þar sem Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku hf. kynnti félagið og fór yfir stefnumótunarvinnu sem stjórn og starfsfólk vann á liðnu ári. Þar kom m.a. fram að starfsfólk félagsins hélt vinnufund þar sem gildi félagsins voru ákvörðuð; virðing, fagmennska og traust. Helgi sagði stöðu Norðurorku hf. sterka og ljóst að stjórn og starfsfólk hefði haldið vel á rekstrinum. Að sama skapi væri ljóst að mörg og spennandi verkefni væru framundan og félag eins og Norðurorka þyrfti ævinlega að horfa langt fram í tímann.
Næst sté á stokk Baldur Dýrfjörð forstöðumaður þróunar hjá Norðurorku hf. og flutti erindi sem bar nafnið "Glerá beisluð" þar sem hann fór yfir aðdragandann að því að fyrsta virkjun Akureyringa var byggð við Glerárfoss árið 1922. Gerði hann m.a. grein fyrir hlut Frímanns B. Arngrímssonar sem ættaður var úr Hörgárdal en fluttist ungur til Ameríku í því að telja Íslendinga á að nýta sér krafta vatnsaflsins til uppbyggingar og framþróunar.
Að loknu kaffihléi flutti erindi Sæþór Ásgeirsson framkvæmdastjóri IceWind þar sem hann kynnti vindrafstöð sem hann hefur unnið að þróun á. Rafstöðin er sérhönnuð fyrir íslenskar aðstæður og byrjaði sem nemendaverkefni við Háskóla Íslands en Sæþór hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og styrki til verkefnisins.
Síðasta erindið á dagskránni flutti Ólafur G. Flóvenz forstjóri Íslenskra orkurannsókna en hann fjallaði um aðferðir til jarðhitaleitar í Eyjafirði, árangurinn af þeim hingað til og tækifærin til framtíðar litið. Fram kom hjá Ólafi að margt hefði gengið á í jarðhitaleit í Eyjafirði í gegnum árin og hún verið átaka- og kostnaðarsöm. En að sama skapi hefði byggst upp mikil þekking á svæðinu og ný tækni gæfi tilefni til ákveðinnar bjartsýni um frekari vinnslumöguleika á svæðinu.
Að loknum framsögum voru umræður og fyrirspurnir til framsögumanna.
Glærur með fyrirlestrum:
Norðurorka staða og framtíðarsýn, Helgi Jóhannesson
Glerá beisluð - 90 ára afmæli Glerárvirkjunar, Baldur Dýrfjörð
Vindorka - þróun á vindrafstöðum fyrir íslenskar aðstæður, Sæþór Ásgeirsson
Aðferðir til jarðhitaleitar í Eyjafirði, árangur og tækifæri, Ólafur G. Flóvens
Í lok erindis síns vék Helgi Jóhannesson forstjóri sérstaklega að miklum mannauði félagsins. Starfsmannavelta er lítil og mikil og góð starfsreynsla er hjá starfsfólkinu. Þakkaði hann sérstaklega þeim starfsmönnum sem létu af störfum hjá félaginu fyrir aldurs sakir á árinu gifturík störf í þágu þess.
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá Helga forstjóra með Rafni Herbertssyni fv. yfirverkstjóra, Guðmundi Brynjólfssyni fv. flokkstjóra og Ingólfi Ingólfssyni, fv. verkefnisstjóra mælaumsjónar en auk þeirra lét af störfum fyrir aldurs sakir Sigtryggur Jónsson fv. flokkstjóri en allir áttu þeir langan og gifturíkan starfsferil hjá Norðurorku hf. og forverum þess, Vatnsveitu, Rafveitu og Hita- og Vatnsveitu Akureyrar.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15