17. mar 2016

Metanframleiðsla hafin að nýju

Metanframleiðsla er hafin að nýju og metangas því til afgreiðslu á metanstöðinni við Súluveg.  En eins og áður hefur komið fram komu upp ákveðin vandamál í framleiðslunni í lok febrúar. Sjá fréttir frá 29. febrúar og 7. mars sl.

Búið er að komast fyrir þau vandamál sem komu upp við söfnun hauggass á sorphaugunum á Glerárdal og öflun í borholum komin í jafnvægi.  Í framhaldinu var hægt að hefja framleiðslu á metangasi í hreinsistöðinni í Breiðholti.

Mikilvægt er að hafa í huga að þrátt fyrir að hauggasframleiðslan sé ekki stýrð, það er að segja ekki er verið að nota sorphaug sem sérstaklega er hugsaður til gasframleiðslu, þá hefur gengið vel hingað til og gasgæðin verið mjög góð.  Í þróunarverkefnum þarf að gera ráð fyrir að stöku sinnum komi upp nýjar áskoranir eins og gerðist í þessu tilviki.  Þetta er lærdómsferli og við munum fara í aðgerðir til þess að minnka líkurnar á því að þetta endurtaki sig.

Höfum í huga að verkefnið felur í sér mikil tækifæri til umhverfisverndar enda er hauggasið um 24 sinnum skaðlegra en koltvísýringurinn sem verður til þegar metangas brennur.  Eigendur metanbíla geta því verið mjög stoltir af framlagi sínu til umhverfisverndar.

Metanafgreiðslustöð við Súluveg á Akureyri