Eins og komið hefur fram í fréttum og tilkynningum til íbúa þá menguðust Garðsvíkurvatnsból Svalbarðsstrandarveitu af yfirborðsvatni. Var því nauðsynlegt að beina því til viðskiptavina veitunnar að neysluvatn væri soðið.
Í framhaldi af þessu hefur markvisst verið farið yfir veituna og skolað út í stofnæðum og vatnstanka með það í huga að kerfið hreinsi sig af menguninni. Gerðar hafa verið reglubundnar mælingar á ýmsum stöðum í veitunni og grant fylgst með vatnsgæðum.
Öll sýni sem tekin voru fyrir helgi og síðar hafa komið vel út og hefur heilbrigðisfulltrúi nú heimilað hefðbundna vatnsnotkun á ný. Þar með er aflétt þeim takmörkunum sem voru á neyslu vatns öðruvísi en að það væri soðið áður.
Í fréttum okkar hér á heimasíðunni í síðustu viku var tekið fram að grannt væri fylgst með öllum lindum á Garðsvíkursvæðinu með það í huga að þær gætu hreinsað sig misfljótt af menguninni. Sú reyndist raunin og nú liggur fyrir að lindir á suðurhluta svæðisins hafa náð að hreinsa sig af mengun vegna yfirborðsvatns. Eru þær nú virkjaðar en lokað fyrir lindir á nyrðri hluta svæðisins.
Rétt er að taka fram að í miklum leysingum í febrúar sl.mengaðist eitt af vatnsbólum á syðri hluta vatnstökusvæðisins af völdum ofanvatns. Unnið hafði verið að endurbótum á því bóli síðastliðið sumar og svæðið ekki orðið fullgróið þegar vetur lagðist að þegar í september. Bólið var því viðkvæmara en ella fyrir þeim miklu vetrarleysingum sem urðu, en í kjölfarið var það sem úrskeiðis fór lagfært. Þetta ból var því tekið úr notkun í vetur og í framhaldinu hreinsaði dreifikerfið sig af menguninni.
Í vorleysingunum í maí fór jarðvegur af stað og smáskriða olli mengun í eldri vatnsbólum á nyrðri hluta vatnstökusvæðisins. Voru þau því tekin úr notkun og eingöngu tekið vatn úr vatnsbólum á syðri hluta svæðisins, þar með talið því vatnsbóli sem laskaðist fyrr í vetur.
Árni Hjartarson jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) kom til vettvangsrannsóknar í kjölfar mengunarinnar í byrjun júní og hefur í framhaldinu unnið skýrslu fyrir Norðurorku. Í henni kemur fram að á heildina litið séu Garðsvíkurlindir góð vatnsból þó þar sé sannarlega mjög ákveðin skriðuhætta fyrir hendi. Bendir hann meðal annars á að skriða féll á vatnsbólin árið 1995 og tók í sundur vatnsleiðsluna til Svalbarðsstrandar og aftur féll skriða árið 1999. Árni gerir tillögur að úrbótum sem minnkað geti hættur á svæðinu þannig að viðunandi sé. Hann bendir þó á að með því sé hamfararhætta ekki úr sögunni, en að hún ætti að vera svo fágæt að viðunandi sé að búa við.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15